Fótbolti

Zlatan bókaði heilt torg í Malmö

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Zlatan Ibrahimovic.
Zlatan Ibrahimovic. Vísir/Getty
Sænski knattspyrnumaðurinn Zlatan Ibrahimovic ætlar að sjá til þess að allir í Malmö eigi möguleika á því að sjá seinni leik sænska liðsins Malmö og franska liðsins Paris Saint Germain í Meistaradeildinni.

Zlatan Ibrahimovic og félagar í PSG drógust á móti æskufélagi Zlatans í Meistaradeildinni í ár og það er gríðarlegur áhugi fyrir leik liðanna í Malmö.

Paris Saint-Germain vann 2-0 sigur á Malmö í fyrstu umferð riðlakeppninnar þar sem Zlatan skoraði reyndar ekki sjálfur en lagði upp seinna markið. Liðin mætast ekki aftur fyrr en í 5. umferð í lok nóvember.

Íslenski landsliðsmaðurinn Kári Árnason hefur talað um það í viðtölum að í Malmö sé Zlatan Ibrahimovic eins og guð. Það vill því enginn alvöru knattspyrnuáhugamaður í borginni missa af þessum leik. Seinni leikurinn fer hinsvegar fram á Swedbank Stadion 25. nóvember næstkomandi en völlurinn tekur hinsvegar "bara" 21 þúsund manns í sæti.

Zlatan Ibrahimovic spilaði með Malmö-liðinu frá 1999 til 2001 eða áður en hann fór suður til Evrópu til að spila með mörgum af frægustu fótboltafélögum heims.

Zlatan er afar vinsæll í Malmö og það var löngu ljóst að félagið hefði getað selt miklu fleiri miða á umræddan leik. Zlatan Ibrahimovic ætlar að gera sitt til þess að sem flestir geti horft á leikinn.

Zlatan tilkynnti á Instagram-síðu sinni að hann hafi bókað aðaltorg Malmö-borgar þar sem leikurinn verður sýndur á risastórum skjá.

Zlatan lofaði líka fleiri óvæntum viðburðum í Malmö-borg þennan sama dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×