Fótbolti

Vönustu aðstoðarþjálfararnir í dag?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Marco van Basten og Ruud van Nistelrooy sitthvoru megin við aðalmanninn Danny Blind.
Marco van Basten og Ruud van Nistelrooy sitthvoru megin við aðalmanninn Danny Blind. vísir/getty
Aðstoðarmenn Danny Blind, landsliðsþjálfara Hollendinga, eru gömlu markakóngarnir Marco Van Basten og Ruud Van Nistelrooy en Ísland mætir einmitt Hollandi á Amsterdam Arena í kvöld.

Hollendingar hafa oft áður nýtt sér þekkingu og innsýn færustu knattspyrnumanna þjóðarinnar áður en sjaldan hafa þeir státað af öðru eins tvíeyki á bekknum.

Marco Van Basten og Ruud Van Nistelrooy eru tveir af öflugustu markaskoruum Hollendinga í sögunni og eru báðir leikmenn sem voru taldir í hópi allra berstu framherja heims þegar þeir voru upp á sitt besta.

Ruud Van Nistelrooy og Danny Blind voru aðstoðarþjálfarar Guus Hiddink frá því að hann tók við liðinu af Louis van Gaal eftir HM 2014. Þegar Blind fékk stöðuhækkun þegar hann tók við hollenska landsliðinu af Hiddink í lok júní þá vantaði annan aðstoðarþjálfara.

Blind sannfærði Marco Van Basten í byrjun júlí um að hætta sem aðstoðarþjálfari AZ Alkmaar og hjálpa hollenska landsliðinu.

Van Basten var aðalþjálfari hollenska liðsins frá 2004 til 2008 en hann var þegar búinn að stíga niður sem aðalþjálfari AZ Alkmaar.

Báðir áttu þeir Van Nistelrooy og Van Basten frábæra fótboltaferla, Van Nistelrooy gerði það gott hjá bæði og Manchester United og Real Madrid en Van Basten var í lykilhlutverki í góðærinu hjá AC Milan og var aðalmaðurinn þegar Hollendingar urðu Evrópumeistarar 1988.

Ruud van Nistelrooy skoraði 35 mörk í 70 landsleikjum fyrir Holland en Marco Van Basten skoraði 24 mörk í 58 landsleikjum.

Svona til fróðleiks má minnast á það að Van Basten spilaði einmitt fyrsta landsleik sinn á móti Íslandi 7. september 1983 þegar Holland vann 3-0 sigur í leik þjóðanna í Groningen. Fyrsti leikur hans sem aðstoðarþjálfari verður því einnig á móti Íslandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×