Fótbolti

Lars ætlar ekki að taka aftur við Svíum | Ákveðinn að hætta eftir EM

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Lars Lagerbäck fagnar áfanganum í gær.
Lars Lagerbäck fagnar áfanganum í gær. vísir/vilhelm
Lars Lagerbäck, annar þjálfara íslenska karlalandsliðsins í fótbolta, er á leið á sitt sjöunda stórmót.

Lagerbäck og Heimir Hallgrímsson komu íslenska karlalandsliðinu á EM í fyrsta sinn í gær þegar liðið gerði markalaust jafntefli við Kasakstan í hellirigningu á Laugardalsvelli.

Sjá einnig:Lars: Ég er ekki hetja

Svíinn, sem er orðinn 67 ára gamall, fór fimm sinnum á stórmót sem þjálfari Svíþjóðar og þá stýrði hann Nígeríu á HM 2010.

„Ég á engin orð yfir þetta. Þetta er ótrúlegt. Strákarnir hafa verið magnaðir og þeir gerðu allt sem ég bað þá um, meira að segja leiðinlegu og taktísku æfingarnar mínar,“ sagði Lars í viðtali við Expressen eftir leikinn í gær.

Hann segist ákveðinn að standa við það að hætta sem þjálfari íslenska liðsins og setjast í helgan stein. Hann sér ekki eftir þeirri ákvörðun nú þegar liðið er komið á EM.

„Nei, ég veit að þetta verður rétti tíminn. Ég á ekki mörg ár eftir þannig það er kominn tími á að gera eitthvað annað. Ég hef þjálfað í 30 ár. Það er kominn tími til að hætta,“ sagði Lars en bætti við: „Við sjáum til hvað gerist.“

Aðspurður hvort það komi til greina að taka aftur við sænska landsliðinu segir hann svo ekki vera. „Ég get ekki ímyndað mér að svo verði. Það kæmi mér mjög mikið á óvart,“ sagði Lars Lagerbäck.


Tengdar fréttir

Biðin er loksins á enda

Íslenska karlalandsliðið er komið áfram á stórmót í knattspyrnu í fyrsta sinn í sögunni en jafntefli gegn Kasakstan á Laugardalsvelli í gærkvöldi dugði strákunum okkar til að tryggja sér farseðilinn á EM 2016 í Frakklandi. Eftir erfiðar 90 mínútur braust út gríðarlegur fagnaður í leikslok.

England, Tékkland og svo litla Ísland

Þjóðirnar sem búnar eru að tryggja sig á EM hafa 24 sinnum tekið þátt í lokakeppni EM þrátt fyrir að nýliðar Ísland séu í hópnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×