Erlent

Bangkok: Einn hinna handteknu er kínverskur

Atli Ísleifsson skrifar
Yusufu Mieraili lýsti framvindunni við Erawanhofið í Bangkok fyrir lögreglu fyrr í dag.
Yusufu Mieraili lýsti framvindunni við Erawanhofið í Bangkok fyrir lögreglu fyrr í dag. Vísir/AFP
Talsmenn taílenskra og kínverskra yfirvalda hafa staðfest að einn þeirra tveggja sem handteknir voru vegna sprengjuárásarinnar í Bangkok í síðasta mánuði sé kínverskur.

Í frétt BBC segir að Yusufu Mieraili hafi fæðst í Xinjiang og tilheyri múslímska minnihlutahópnum Uighur.

Hann hefur viðurkennt að hafa flutt sprengjuna, sem komið hafði verið fyrir í bakpoka, úr íbúðinni þar sem hún var gerð og á lestarstöð þar sem maðurinn, sem talinn er hafa komið henni fyrir í hofinu, hafi tekið við sprengjunni. Sá gengur enn laus.

Í frétt Global Times er haft eftir kínverskum embættismönnum að sprengingin kunni að vera verk aðskilnaðarsinna í Xinjiang. Enn hefur þó enginn lýst yfir ábyrgð á árásinni sem var gerð við Erawanhofið þann 17. ágúst þar sem tuttugu fórust.

Maðurinn sem kom sprengjunni fyrir er enn ófundinn en Mieraili auk eins til viðbótar eru nú í haldi lögreglu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×