Erlent

Makedónía beitir táragasi á flóttamenn

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Makedónía er með mikinn viðbúnað við landamæri sín að Grikklandi
Makedónía er með mikinn viðbúnað við landamæri sín að Grikklandi Vísir/AFP
Lögreglan í Makedóníu beitti táragasi á flóttamenn sem reyndu að komast inn í landið frá Grikklandi í morgun. Þúsundir flóttamanna hafa komið inn í Makedóníu á undanförnum dögum en yfirvöld landsins hafa lýst yfir neyðarástandi í tveimur héruðum landsins.

Mikill fjöldi flóttamanna dvaldi á landamærum Makedóníu og Grikklands í nótt og gerðu þeir tilraun til þess að komast framhjá lögreglu og inn í Makedóníu undir morgunsárið. Lögreglan beitti táragasi á hópinn til þess að dreifa hópnum. Að minnsta kosti fimm slösuðust í átökunum en talið er að allt að 44.000 flóttamenn hafi ferðast í gegnum Makedóníu á síðustu tveimur mánuðum.

Um 160.000 flóttamenn hafa komið til Grikklands frá því í janúar samkvæmt tölum frá Sameinuðu þjóðunum, af þeim hafa um 50.000 komið undanfarin mánuð. Flestir flóttamannana reyna að komast norðar á bóginn til norður- og vestur-Evrópu, margir af þeim til þess að flýja átökin í Sýrlandi. Ef Makedónía lokar landamærum sínum algjörlega er óttast að gríðarlegur fjöldi flóttamanna muni safnast fyrir í Grikklandi.


Tengdar fréttir

Þjóðverjar búast við allt að 750 þúsund flóttamönnum á þessu ári

Merkel, kanslari Þýskalands, segir Dyflinnarbókunina ekki lengur í gildi, en ráðherra í stjórn hennar segir að án Dyflinnarákvæðisins sé Schengen-samkomulagið í hættu. Flóttamannastofnun SÞ segir ósanngjarnt að Þýskaland og Svíþjóð taki við flestum flóttamönnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×