Innlent

Líkfundur í Laxárdal: Getur tekið nokkurn tíma að bera kennsl á hinn látna

Birgir Olgeirsson skrifar
Göngufólk fann lík mannsins við Sauðdrápsgil í Laxárdal á þriðjudag.
Göngufólk fann lík mannsins við Sauðdrápsgil í Laxárdal á þriðjudag. Vísir/Loftmyndir.is
Lögreglan á Suðurlandi, kennslanefnd ríkislögreglustjóra og tæknideild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu vinna áfram úr ábendingum sem borist hafa vegna líkfundarins í Laxárdal í Nesjum síðastliðinn þriðjudag. Þetta kemur fram í tilkynningu sem barst frá lögreglu á ellefta tímanum í morgun.

Sjá einnig: Göngufólk fann lík unga mannsins við Sauðdrápsgil í Laxárdal

Þar segir að lögreglan sé meðal annars í samvinnu við erlend lögregluyfirvöld vegna málsins. Fram kom í frétt Vísis í gær að fyrir höndum væri leit í gagnasöfnum hér heima og ytra til að reyna að finna einhver fingraför eða sýni sem hægt er að bera saman í tengslum við rannsóknina.

Í tilkynningu lögreglunnar kemur fram að réttarkrufning hafi farið fram og að réttarlæknir vinni nú úr niðurstöðum þeirra. Fram kom á Vísi í gær að réttarkrufningin var framkvæmd á miðvikudag.

Lögreglan segist í tilkynningunni ætla að upplýsa um gang rannsóknarinnar eftir því sem henni miðar áfram og að nokkurn tíma getur tekið að fá staðfest auðkenni þannig að unnt sé að  bera kennsl á hinn látna.

Sjá einnig: Maðurinn ekki á lista lögreglu yfir þá sem er saknað 

Það mun því töluvert mæða á kennslanefnd ríkislögreglustjóra á næstunni en hana skipa tveir rannsóknarlögreglumenn, réttarlæknir og tannlæknir.

Vísir sagði einnig frá því í gær að tveir væru á lista lögreglu yfir einstaklinga sem er saknað á Íslandi. Þessir tveir einstaklingar eru Matthías Þórarinsson og þýski ferðamaðurinn Christian Mathias Markus. Samkvæmt heimildum Vísis skoðaði lögreglan lista yfir einstaklinga sem er saknað hér á landi og hefur verið útilokað að lík unga mannsins sem fannst í Laxárdal í vikunni sé af annað hvort Matthíasi eða Christian.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×