Fótbolti

Kári: Það besta sem ég hef upplifað

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Kári stóð vaktina vel í vörn Malmö í gær.
Kári stóð vaktina vel í vörn Malmö í gær. vísir/getty
Malmö tryggði sér í gær sæti í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu annað árið í röð eftir 2-0 sigur á Celtic í seinni leik liðanna í síðustu umferð forkeppninnar.

Skosku meistararnir unnu fyrri leikinn á Celtic Park með þremur mörkum gegn tveimur og Malmö fór því áfram, 4-3 samanlagt.

Ísland mun því eiga tvo fulltrúa í Meistaradeildinni í vetur; Kára Árnason, leikmann Malmö, og Alfreð Finnbogason, leikmann Olympiakos.

„Þeir sköpuðu ekki mikið. Við höfðum góða stjórn á leiknum og þeir náðu aldrei að pressa okkur,“ sagði Kári eftir leikinn.

Markus Rosenborg kom Malmö yfir á 23. mínútu og sænsku meistararnir fóru með 1-0 forystu inn í hálfleikinn. En hvað sagði Åge Hareide, knattspyrnustjóri Malmö, við sína menn í hálfleik?

„Hann sagði okkur að brosa. Við værum með forystu og þeir væru ekki að skapa neitt,“ sagði Kári sem kom til Malmö frá enska B-deildarliðinu Rotherham fyrr í sumar.

„Þetta var magnað. Þetta er það besta sem ég hef upplifað,“ bætti Kári við en dregið verður í riðla í Meistaradeildinni á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×