Erlent

Elísabet II nálgast met í setu á valdastóli

Heimir Már Pétursson skrifar
Núverandi forsætisráðherra Bretlands var ekki fæddur þegar hin 89 ára Elísabet II varð drottning í Bretlandi. Segja má að hún hafi gengið með þjóð sinni í gegnum alla nútímasögu Evrópu. Og innan fárra daga slær hún met langa-langömmu sinnar í setu á valdastóli.

Elísabet önnur varð drottning fyrir tilviljun örlaganna vegna þess að faðir hennar átti aldrei að verða konungur. Þegar föðurbróðir hennar Játvarður sjöundi sagði af sér vegna sambands hans við Wallis Simpson tók faðir hennar við krúnunni og varð Georg sjötti. Hann lést fimmtán árum síðar og Elísabet varð drottning aðeins 25 ára gömul í febrúar 1952 og krýnd í júní ári síðar.

Þá var Winston Churchill forsætisráðherra sem var hlýtt til drottningarinnar. Þar á eftir komu Wilson og Margaret Thacher svo dæmi séu tekin af þeim tólf forsætisráðherrum sem hafa þjónað henni,  nú síðast David Cameron en 14 ár voru í fæðingu hans þegar Elísabet varð drottning.

„Ég lýsi yfir frami fyrir ykkur öllum að allt mitt líf, hvort sem það verður langt eða stutt, mun ég tileinka þjónustu við ykkur og fjölskyldu þess mikla heimsveldisins sem við tilheyrum,“ sagði Elísabet II í fyrsta sjónvarpsávarpi sínu.

Og það gæti orðið langur tími því móðir hennar og nafna varð 102 ára en drottningin, sem nú er 89 ára,  hefur sagt að starf hennar sé ævistarf. Hún gæti því átt eftir að ríkja í rúman áratug í viðbót. En hinn 9. september næst komandi slær hún met langa-lang ömmu sinnar Viktoríu sem átti fimm mánuði í að hafa ríkt í 64 ár þegar hún lést í febrúar árið 1901.

Tíu menn hafa verið forseti Bandaríkjanna á valdatíma Elísabetar og hún hefur hitt þá alla, eins og vandræðatólið Nixon, Hollywood leikarann Ronald Reagan sem hún fór í útreiðartúr með,  Bush feðgana George eldra og yngri, sjarmörinn Bill Clinton og núna síðast Barack Obama. Þá hafa níu menn setið á páfastóli í valdatíð hennar.

Simon Lewis fyrrverandi upplýsingafulltrúi drottningarinnar segir konungsfjölskyldunni hafa tekist að aðlaga sig breyttum tímum og komist í gegnum margar tilvistarkreppur, aðallega vegna hæfileika drottningarinnar.  Sú alvarlegasta hafi verið skilnaðir barna hennar og dauði Díönu prinsessu.

„Það kemur mér stöðugt á óvart varðandi konungdæmið og konungsfjölskylduna, hvernig við sjáum konungsfjölskylduna eins og okkar eigin fjölskyldur. Samböndin, hvernig fólk þróast og þroskast, hvernig fólk vex. Og ég held að saga eins og þessi, svona fjölskyldusaga, höfði til okkar allra,“ segir Lewis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×