Innlent

Ungur maður fluttur með sjúkraflugi af þjóðhátíð vegna heilablæðingar

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Úr Herjólfsdal í gærkvöldi.
Úr Herjólfsdal í gærkvöldi. Vísir/Óskar P. Friðriksson
Ungur maður var fluttur með sjúkraflugi frá Vestmannaeyjum til Reykjavíkur seint í gærkvöldi vegna áverka sem hann hafði hlotið á höfði. Grunur leikur á að honum hafi hlotnast áverkarnir í slagsmálum.

Maðurinn, sem er aðkomumaður, hafði leitað á sjúkrahúsið í Vestmannaeyjum með mar á höfði og við rannsókn kviknaði grunur að blætt hafði inn á heila mannsins.

Var honum því flogið á gjörgæsludeild í Fossvogi þar sem sá grunur var staðfestur og var hann drifinn í aðgerð vegna þessa. Að sögn vakthafandi lækna tókst aðgerðin vel og sá slasaði allur að koma til.

Sjá einnig: Gæslumaður skallaður og spellvirki á harðahlaupum í Eyjum

Að sögn Jóhannesar Ólafssonar  vaktstjóra í Vestmannaeyjum er mál mannsins til rannsóknar en ekki liggur fyrir hvernig honum hlotnuðust áverkarnir.

Ekki sé hægt að staðfesta að þeir séu tilkomnir vegna höfuðhöggs sem einhver hafi veitt honum enda hafi engin vitni orðið að því. Það sé allt eins líklegt að hann hafi fallið með fyrrgreindum afleiðingum. Jóhannes segist ekki geta útilokað það en samferðafólk mannsins hafi tjáð lögreglu að það hafi ekki séð neina árásarmenn.

Jóhannes segir að málið sé litið alvarlegum augum og að lögreglan vinni nú í því að kanna myndabandsupptökur af svæðinu. Eins og staðan er sé „allt mjög óljóst.“

Uppfært klukkan 15:58

Í fyrri útgáfu fréttarinnar kom fram að læknir á bráðamóttöku hefði talið að einhver hefði veitt manninum höfuðhögg. Ekki var rétt eftir lækninum haft og er beðist afsökunar á því.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×