Fótbolti

Jón Daði og Indriði á skotskónum í öruggum sigri Viking

Jón Daði Böðvarsson skoraði tvö mörk og lagði upp eitt í 4-1 sigri Viking á Álasund.
Jón Daði Böðvarsson skoraði tvö mörk og lagði upp eitt í 4-1 sigri Viking á Álasund. vísir/getty
Landsliðsmaðurinn Jón Daði Böðvarsson fór á kostum þegar lið hans, Viking frá Stavanger, vann sannfærandi sigur á Álasund í 16. umferð norsku úrvalsdeildinnar. Jón Daði skoraði tvö mörk og lagði upp eitt í 4-1 sigri Viking. Indriði Sigurðsson skoraði fjórða mark Viking.

Indriði Sigurðsson og Jón Daði voru í byrjunarliði Viking en Steinþór Freyr Þorsteinsson sat á bekknum og Björn Daníel Sverrisson var fjarverandi vegna meiðsla. Hjá Álasund voru þeir Daníel Leó Grétarsson og Aron Elís Þrándarson báðir í byrjunarliðinu.

Suleiman Abdullahi kom Viking yfir með marki strax á 5. mínútu eftir undirbúning Jóns Daða. Jón Daði skoraði svo tvö mörk áður en flautað var til hálfleiks. Það fyrra kom á 29. mínútu og það síðara á markamínútunni, þeirri 43.

Daníel Leó og Aron Elís voru báðir teknir af velli í upphafi síðari hálfleiks. Mostafa Abdellaoue minnkaði muninn fyrir Álasund á 61. mínútu en Indriði Sigurðsson skoraði fjórða og síðasta mark Viking í leiknum á 65. mínútu. Steinþór Freyr kom inn á sem varamaður á 67. mínútu.

Viking er í 3. sæti eftir þennan sigur með 28 stig eftir 16 leiki. Álasund er hins vegar í 10. sæti með 19 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×