Íslenski boltinn

Þorsteinn Már hefur endanlegt ákvörðunarvald

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Þorsteinn Már í leiknum gegn Rosenborg í gær.
Þorsteinn Már í leiknum gegn Rosenborg í gær. Vísir/Valli
Þorsteinn Már Ragnarsson, leikmaður KR, má ákveða sjálfur hvort hann fari frá KR fyrir mánaðarlok eða klári samning sinn við félagið.

Þetta staðfesti Kristinn Kjærnested, formaður knattspyrnudeildar KR, í samtali við Vísi.

„Þorsteinn Már hefur endanlegt ákvörðunarvald í þessu máli. Það ríkir heiðursmannasamkomulag um það,“ sagði Kristinn sem veit ekki hvort að sóknarmaðurinn öflugi ætli að fara frá KR eða ekki.

„Ég held hreinlega að hann sé ekki að hugsa um það núna. Hann hefur staðið sig vel með KR og ég hef ekki rætt þetta sérstaklega við hann að undanförnu,“ sagði Kristinn. „Og ég hef ekki heyrt neitt sem bendir til þess að hann sé að fara.“

Þorsteinn Már var í byrjunarliði KR gegn Rosenborg í forkeppni Evrópudeildar UEFA í gær en fór meiddur af velli í fyrri hálfleik. Enn er óvitað hversu lengi hann verður frá.

Hann var maður leiksins er KR vann sannfærandi sigur á Víkingi, 3-0, í Pepsi-deild karla um helgina en hann skoraði eitt og lagði upp annað fyrir KR.

Þorsteinn Már hefur verið sterklega orðaður við Breiðablik og fékk leyfi til að ræða við forráðamenn Breiðabliks og Stjörnunnar. Eysteinn Pétur Lárusson, framkvæmdastjóri Breiðabliks, sagði eftir þær viðræður að Þorsteinn Már væri mjög spenntur fyrir Breiðabliki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×