Erlent

Annar fangavörður handtekinn

Samúel Karl Ólason skrifar
Hundruð manna taka þátt í leitinn að strokuföngunum.
Hundruð manna taka þátt í leitinn að strokuföngunum. Vísir/AFP
Fangavörðurinn Gene Palmer hefur verið handtekinn í New York í Bandaríkjunum. Það var gert eftir að í ljós kom að hann færði strokuföngunum tveimur frosið kjöt sem búið var að fela verkfæri í. Lögmaður hans segir hann ekki hafa vitað af verkfærunum.

Þeirra David Sweat og Richard Matt er enn leitað eftir að þeir struku úr hámarksöryggisfangelsi þann sjötta júní. Sweat sat inni fyrir að myrða lögreglumann og Matt fyrir að rænt, pyntað og myrt yfirmann sinn. Fangavörðurinn Joyce Mitchell hefur verið ákærð fyrir að hjálpa mönnunum að flýja.

Sjá einnig: Bað mennina um að koma eiginmanni sínum fyrir kattarnef

Mitchell sagði rannsakendum að hún hefði falið verkfæri sem fangarnir notuðu til að flýja inn í hamborgarakjöti og þannig komið þeim inn í fangelsið. Palmer færði föngunum svo kjötið, en þeir matreiddu sínar eigin máltíðir.

„Hann færði þeim kjötið. Hann hefði ekki átt að gera það og hann baðst afsökunar,“ segir lögmaður Gene Palmer. Hann þvertók fyrir að Palmer hefði vitað af verkfærunum.

Fangarnir notuðu verkfærin til að gera gat á stálveggi fangaklefa sinna, komast í gegnum vegg hlaðinn úr múrsteinum og skera gat á pípu. Þeir fóru í gegnum pípuna út í holræsakerfi fangelsisins. Síðan þurftu þeir að skera á keðju og lás til að komast úr holræsakerfinu.

Talið er nánast öruggt að fangarnir hafi haldið til í veiðikofa í um 30 kílómetra frá fangelsinu. Svæðið við fangelsið er skógi vaxið og þar eru fjölmargir veiðikofar. Fregnir bárust af því að haglabyssu hafi verið stolið úr veiðikofanum sem talið er að fangarnir hafi verið í. Það hefur þó ekki verið staðfest.

Lögreglan segir þó að í nánast hverjum þessara kofa séu byssur og skotfæri og ganga þeir út frá því að fangarnir séu vopnaðir. Hundruð manna taka þátt í leitinni að mönnunum en mest er leitað á svæðinu í kringum fangelsið.


Tengdar fréttir

Enn hefur ekkert spurst til strokufanganna - Myndir

Ríkisstjórinn Andrew Cuomo segir að hundrað þúsund dollarar hafi nú verið settir til höfuðs þeim enda séu þeir afar hættulegir og líklegir til þess að fremja ódæðisverk á ný.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×