Fótbolti

Elmar: Auðvelt val að fara til AGF

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Elmar hefur leikið fjóra af fimm leikjum Íslands í undankeppni EM.
Elmar hefur leikið fjóra af fimm leikjum Íslands í undankeppni EM. vísir/daníel
Theodór Elmar Bjarnason, landsliðsmaður í fótbolta, er sem kunnugt er á leið til AGF sem vann sér sæti í dönsku úrvalsdeildinni á nýliðnu tímabili. Elmar kemur frá öðru dönsku liði, Randers, en af hverju varð AGF fyrir valinu?

„Þetta er stórt félag sem er komið með nýjan þjálfara og nýjan yfirmann knattspyrnumála og ætlar sér að byggja liðið að nýju upp frá grunni.

„Þetta er eitt af stærstu liðunum í Danmörku og eftir að ég fór á fund með þjálfaranum og stjórninni var þetta auðvelt val fyrir mig,“ sagði Elmar sem kemur til AGF á frjálsri sölu.

Hann var með samningstilboð í höndunum frá Randers en ákvað að söðla um og færa sig um set til Árósa.

Eins og Elmar segir er AGF eitt af stærstu félögum Danmerkur en það hefur fimm sinnum orðið danskur meistari. Síðustu ár hafa hins vegar verið erfið en AGF hefur þrisvar fallið niður í næstefstu deild síðan 2006. Elmar segir að gengi AGF síðustu ár hafi ekki fælt hann frá.

„Þetta er alltaf áhætta sem maður tekur þegar lið eru að koma upp um deild og ætlar sér að kaupa fullt af nýjum leikmönnum. Það er alltaf spurning hvort þetta gengur upp eða ekki?

„En ég tók sömu áhættu þegar ég fór til Randers og það gekk upp,“ sagði Elmar en hvaða hlutverk er honum ætlað hjá AGF?

„Þeir spila 4-3-3 og mér er ætlað að vera einn af þremur miðjumönnum í því leikkerfi. Það er draumastaðan mín og ég fæ loksins að spila hana eftir langa bið,“ sagði Elmar sem lék ýmist sem varnarsinnaður miðjumaður eða vinstri kantmaður í leikkerfinu 4-4-2 með Randers.

Honum segist líða vel í Danmörku þar sem hann hefur leikið í þrjú og hálft ár.

„Mér líður vel þarna og kann rosalega vel við Danmörku. Boltinn þar er mjög skemmtilegur og teknískur og liðin vilja halda boltanum,“ sagði Elmar sem segist aldrei hafa verið í betra formi en núna og hann sé á toppi ferilsins.


Tengdar fréttir

Alfreð: Ár sem mun gefa mér rosalega mikið

Alfreð Finnbogason vill vera áfram hjá Real Sociedad þrátt fyrir lítinn spilatíma á sinni fyrstu leiktíð á Spáni. Honum fannst leiktíðin skemmtileg þótt erfitt hafi verið að sitja jafnmikið á bekknum og raun bar vitni.

Jón Daði: Vil komast í stærra félag

"Það er alltaf jafn gaman að koma í landsliðið og mikil tilhlökkun fyrir leiknum," segir Jón Daði Böðvarsson á Laugardalsvelli í dag en hann hefur átt frábæra leiki fyrir íslenska landsliðið í undankeppni EM.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×