Innlent

Aðstandendur Þjóðareignar funduðu með sjávarútvegsráðherra

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegsráðherra.
Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegsráðherra. vísir/stefán
Fulltrúar undirskriftasöfnunarinnar þjóðareign.is hittu sjávarútvegsráðherra að máli í dag. Samkvæmt yfirlýsingu frá aðstandendum Þjóðareignar voru viðræðurnar ítarlegar og málefnalegar af beggja hálfu.

Á fundinum lýstu fulltrúar þjóðareign.is því hversu óráðlegt þeir telja að farið sé í bindandi úthlutun á aflahlutdeildum, nú makríl, til lengri tíma en eins árs á meðan enn er ófrágengið ákvæði í stjórnarskrá sem kveður á um eignarhald þjóðarinnar á fiskveiðiauðlindinni og að fyrir afnotin komi fullt gjald.

Undirskriftasöfnunin þjóðareign.is einskorðast ekki við makríl, heldur tekur til allra fiskistofna en hún stendur nú í 50.968 undirskriftum sem gerir hana að einni fjölmennustu undirskriftasöfnun ssem efnt hefur verið til hér á landi.

Í yfirlýsingunni segir að með makrílfrumvarpinu, ef það nær fram að ganga, verði vart aftur snúið frá endanlegri afhendingu auðlinda almennings, að mati þjóðareign.is. Í frumvarpinu er kveðið á um að út­hlutun makríl­kvóta sé í raun ótímabundin þar sem afturköllun yrði að styðjast við þing­meirihluta tvö ef ekki þrjú kjörtímabil í röð eigi hún að ná fram að ganga.

Að mati þeirra sem að undirskriftarsöfnuninni standa gefur það auga leið að aflahlutdeildir verða ekki innkallaðar fyrirvaralítið og vera má að allar meginbreytingar á núgildandi kvótakerfi kalli á ígildi sex ára aðdraganda. Makrílfrumvarpið bindi hendur stjórnvalda þannig að eftir samþykkt þess gefist ekki framar tækifæri til að ná sáttum um fiskveiðistjórnun til framtíðar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×