Innlent

Vogabyggð gerð að íbúðarhverfi

Samúel Karl Ólason skrifar
Vegna breytinganna þarf að gera götur, torg, stíga, stofnlagnir, strandstíga og fleira.
Vegna breytinganna þarf að gera götur, torg, stíga, stofnlagnir, strandstíga og fleira. Mynd/Reykjavíkurborg
Samkvæmt deiliskipulagstillögu sem er í vinnslu hjá Reykjavíkurborg verður Vogabyggð austan Sæbrautar breytt í íbúða- og atvinnusvæði. Í dag er svæðið eingöngu ætlað atvinnustarfsemi, en eftir breytingarnar verður fjórðungur húsnæðis þar ætlaður atvinnustarfsemi. Gert er ráð fyrir 1.100 íbúðum í hverfinu eftir breytingarnar.

Á vef Reykjavíkurborgar segir að sérstökur starfshópur hafi fengið umboð til að semja lóðarhafa á grundvelli fyrirliggjandi deiliskipulagstillagna og samningsramma.

Þar segir að uppbyggingin muni auka verðmæti lóðanna verulega og áformað sé að semja við lóðarhafa um fyrirkoumlag uppbyggingarinnar og þátttöku þeirra.

„Í samþykkt borgarráðs áskilur Reykjavíkurborg sér rétt til að hefja ekki framkvæmdir við uppbyggingu hverfisins fyrr en lóðarhafar sem ráða yfir 70 prósent af nýju byggingarmagni á viðkomandi svæði hafa skuldbundið sig til þátttöku og að ráðast í uppbyggingu á sínum lóðum. Lóðarleigusamningar á svæðinu eru alls 50 og lóðarhafar um 140 talsins.“

Vegna breytinganna þarf að gera götur, torg, stíga, stofnlagnir, strandstíga og fleira. Þar að auki er gert ráð fyrir göngubrú og stíflu við Háubakkatjörn, brú yfir Naustavog, færslu á Kleppsmýrarvegi og færslu á skólpdælustöð.

„Verði hverfinu breytt í íbúðahverfi með 1.100 íbúðum kallar það á byggingu grunn- og leikskóla, en gert er ráð fyrir að ráðist verði í slíka framkvæmd samhliða uppbyggingu íbúða. Frumkostnaðaráætlun fyrir uppbyggingu innviða hverfisins nemur tæpum 5 milljörðum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×