Erlent

Óttaðist að svartir væru að taka yfir heiminn

Samúel Karl Ólason skrifar
Dylann Storm Roof.
Dylann Storm Roof. Vísir/EPA
Dylann Roof, sem sakaður er um að hafa skotið níu manns til bana í Bandaríkjunum, óttaðist að svartir væru að taka yfir heiminn. Hann er sagður hafa gengið inn í fræga kirkju í Charleston þar sem hann hóf skothríð á svart fólk sem var í kirkjunni í gærmorgun.

Eftir nokkurra klukkutíma leit var Roof handtekinn í um 300 kílómetra fjarlægð frá Charleston, þar sem skotárásin átti sér stað. Vegfarandi tók eftir honum á rauðu ljósi eftir að myndum af honum hafði verið dreift á netinu.

Æskuvinur Roof, sem hitti hann fyrir nokkrum vikum, segir að þeir hafi farið saman á „fyllerí“. Þá hafi Roof sagt að svart fólk væri að taka yfir heiminn og að „einhver þyrfti að gera eitthvað í því fyrir hvíta kynstofninn“.

Sex konur dóu í árásinni og þrír menn. Einn þeirra sem dó var þingmaður sem einnig vann sem prestur, þrír aðrir prestar, umsjónarmaður bókasafns, íþróttaþjálfari, embættismaður, námsráðgjafi og ný útskrifaður stúdent.

Á myndbandsupptökum má sjá hvernig Roof gekk inn í kirkjuna þar sem fólk tók vel á móti honum og taldi hann vilja lesa biblíuna með þeim. Réttarstjórinn Ray Wilson, segir að skömmu seinna hafi Roof orðið mjög árásargjarn. Síðan hafi hann skotið níu manns til bana.

Sagðist vera með áætlun

Joey Meek, æskuvinur Roof, hringdi í lögregluna eftir að myndir voru birtar af árásarmanninum, en hann segist handviss um að Roof hafi verið að verki.

„Ég hélt ekki að þetta gæti verið hann. Ég vissi að þetta væri hann,“ sagði Meek við AP fréttaveituna. Hann sagði að þegar þeir hefðu hist fyrir nokkrum vikum hafi Roof sagt honum frá nýrri byssu sem hann ætti og að hann væri búinn að gera „áætlun“.

Roof sagði ekki hver áætlun hans væri, en Meek var þó nægilega smeykur til að taka byssuna úr bíl Roof og fela hana. Hann skilaði byssunni svo daginn eftir.

Minningarfundir hafa verið haldnir víða í Charleston og voru kirkjur víða um borgina þétt setnar af syrgjendum. Á líkvöku Sharondu Singleton sögðu börn hennar að þau fyrirgefi morðingja hennar. Í samtali við BBC sögðu þau að ástin væri sterkari en hatur.


Tengdar fréttir

Fékk skotvopnið í afmælisgjöf

Kynþáttahatur bjó að baki þegar Dylann Storm Roof myrti níu manns, sex konur og þrjá karla, í kirkju í borginni Charleston í Suður- Karólínu. Roof hafðist við í kirkjunni í um klukkustund áður en hann hóf skothríð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×