Erlent

Á sólarknúinni flugvél yfir Kyrrahafið

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Vænghaf vélarinnar er stærra en á breiðþotu en hún er aðeins á þyngd við stóran bíl.
Vænghaf vélarinnar er stærra en á breiðþotu en hún er aðeins á þyngd við stóran bíl. Vísir/AFP
Svissneski flugmaðurinn Andre Borschberg er lagður af stað í flug á sólarknúinni flugvél sinni yfir Kyrrahafið, frá Kína til Havaí. Borschberg lagði af stað um klukkan 18.40 í kvöld en flugvél hans er knúin sólarorku eingöngu.

Vænghaf vélarinnar er stærra en á breiðþotu en hún er aðeins á þyngd við stóran bíl.

Áætlunin er að klára flugið á fimm til sex dögum og ætlar flugmaðurinn að reyna að vaka stærstan hluta þess; aðeins að taka sér stutta lúra. Fylgst er með fluginu úr stjórnstöð í Mónakó og fær Borschberg stöðugar tilkynningar frá veðurfræðingum og sérfræðingum til að velja bestu leiðina.

Ferðin er erfiðasti leggurinn í nokkurra hluta ferðalagi umhverfis hnöttinn. Ferðin hófst í Abú Dabí í mars síðastliðnum en flugvélin hefur verið föst á austurströnd Kína vegna veðurs. Vélin þarf bæði hagstæði vindskilyrði og auðan himinn svo að hreyflar hennar fái orku frá sólinni.

Rafhlöður flugvélarinnar þurfa að vera fullhlaðnar við sólsetur svo að hægt sé að fljúga henni í gegnum nóttina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×