Íslenski boltinn

Ásmundur: Virðingin fyrir röndótta liðinu of mikil

Ingvi Þór Sæmundsson á Fylkisvelli skrifar
Ásmundur Arnarsson, þjálfari Fylkis.
Ásmundur Arnarsson, þjálfari Fylkis. vísir/stefán
"Ég er fyrst og fremst gríðarlega svekktur með niðurstöðuna, mér fannst við spila vel á köflum og verðskulda eitthvað út úr þessum leik," sagði Ásmundur Arnarsson, þjálfari Fylkis, í samtali við Vísi eftir tap Árbæinga fyrir KR í kvöld.

"Við færum þeim mörkin á silfurfati og það setur okkur í erfiða stöðu. Við komust samt inn í leikinn, náum að jafna og sköpum færi sem nýttust ekki. Ef þú gefur mörk og nýtir ekki færin færðu ekkert út úr leikjunum."

Ásmundur, eins og fleiri Fylkismenn, var langt frá því að vera sáttur með frammistöðu Þóroddar Hjaltalín, dómara leiksins, en hann dæmdi m.a. mark af heimamönnum á 72. mínútu sem var umdeild ákvörðun.

"Ég hef ekki hugmynd um af hverju hann dæmdi markið af og er ósáttur með þann dóm. Það segir sig sjálft. Þetta er enn eitt dæmið í sumar," sagði Ásmundur og vísaði þar til þeirra óþarflega mörgu marka sem hafa verið dæmd af leikjum í Pepsi-deildinni í sumar.

"Bæði við og dómaratríóið hjálpuðum KR-ingum full mikið. Ég var ósáttur með nokkra dóma í kvöld og mér fannst línan vera þannig að virðingin var full mikil gagnvart röndótta liðinu."

Fylkismenn hafa aðeins unnið einn af fyrstu fjórum leikjum sínum í Pepsi-deildinni og Ásmundur segir að það sé full rýr uppskera.

"Við viljum meira," sagði Ásmundur Arnarsson að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×