Fótbolti

Benitez í viðræðum við Real Madrid

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rafael Benitez og Steven Gerrard með Meistaradeildarbikarinn 2005.
Rafael Benitez og Steven Gerrard með Meistaradeildarbikarinn 2005. Vísir/Getty
Rafael Benitez, fyrrum knattspyrnustjóri Liverpool, þykir líklegastur til að taka við þjálfun Real Madrid samkvæmt fjölmiðlum á Spáni.

Það er búist við því að Carlo Ancelotti stjórni Real Madrid í síðasta sinn um helgina þegar liðið mætir Getafe en Real Madrid vann engan titil í vor.

Samningur Rafael Benitez við ítalska félagið Napoli rennur út í næsta mánuði en hann hefur verið hjá ítalska liðinu frá árinu 2013. Napoli varð ítalskur bikarmeistari undir hans stjórn á síðasta tímabili.

Rafael Benitez er í viðræðum við Real Madrid en það er ekki búið að semja um neitt ennþá.

Ferilskráin hjá Rafael Benitez inniheldur störf hjá Valencia, Liverpool, Internazionale og Chelsea en hann var stjóri Liverpool frá 2004 til 2010 og leysti af hjá Chelsea tímabilið 2012-13.

Liverpool vann Meistaradeildina undir stjórn Benitez árið 2005 og varð enskur bikarmeistari árið eftir.

Rafael Benitez er 55 ára gamall Spánverji en hann þjálfaði síðast á Spáni fyrir meira en tíu árum síðan þegar hann var með Valencia. Valencia varð tvisvar spænskur meistari undir hans stjórn eða 2002 og 2004. Liðið vann einnig UEFA-bikarinn 2004.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×