Enski boltinn

Þrjú stig dregin af liði Kára

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Kári í leik með Rotherham.
Kári í leik með Rotherham. Vísir/Getty
Kári Árnason og félagar í Rotherham urðu fyrir áfalli í dag er þrjú stig voru dregin af liðinu fyrir að nota ólöglegan leikmann.

Eftir úrskurðinn er Rotherham nú með 41 stig, einu meira en Millwall sem er efst af liðunum sem er í fallsæti. Rotherham á þó leik til góða - á þrjá leiki eftir af tímabilinu en önnur lið í fallbaráttunni tvö.

Rotherham var einnig sektað um 30 þúsund pund, rúmar sex milljónir króna, fyrir að tefla fram Farrend Rawson í 1-0 sigri liðsins á Brighton fyrr í mánuðinum. Rawson er í láni hjá félaginu frá Derby en hafði ekki heimild til að spila leikinn.

Í yfirlýsingu félagsins er niðurstaðan hörmuð þar sem um mistök í pappírsvinnu hafi verið að ræða. Það hafi ekki verið ætlunin að brjóta neinar reglur.

Rotherham hefur frest til að áfrýja málinu til 1. maí og gæti því lokaniðurstaða deildarkeppninnar ekki legið fyrir fyrr en löngu eftir að tímabilinu er lokið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×