Erlent

Óttast að allt að 4.500 manns hafi farist í skjálftanum

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Staðfest er að 1500 hafi farist í skjálftanum en ljóst þykir að tala látinna eigi eftir að hækka á næstu dögum.
Staðfest er að 1500 hafi farist í skjálftanum en ljóst þykir að tala látinna eigi eftir að hækka á næstu dögum. Vísir/Getty
Yfirvöld í Nepal óttast að allt að 4.500 manns hafi látist í jarðskjálftanum sem varð þar um hádegisbil á laugardag. Staðfest er að um 1500 manns hafi farist og er talið að allt 45.000 hafi særst.

Björgunaraðgerðir munu taka marga daga þar sem erfitt er að komast að fjallaþorpum á hamfarasvæðinu auk þess sem símasamband er stopult og rafmagnsleysi víða. Á meðan er fjöldi fólks án matar, vatns og lyfja.

Ríkisstjórnin í Nepal hefur biðlað til alþjóðasamfélagsins um aðstoð og streyma björgunarlið nú til landsins. Indland er í forsvari fyrir alþjóðlegu neyðaraðstoðina og hefur sent 40 manna viðbragðsteymi til Nepal auk leitarhunda, lyfja og færanlegs spítala.

Þá hafa Bandaríkin og Bretland einnig sent björgunarteymi til landsins auk þess sem heilbrigðisstarfsfólk og björgunarsveitarmenn frá Pakistan hafa farið á staðinn.

Upptök skjálftans, sem var 7,9 að stærð, voru um 80 kílómetra austur af borginni Pokhara, á um tveggja kílómetra dýpi. Fjölmargir eftirskjálftar hafa orðið og sofa tugir þúsunda utandyra í nótt af ótta við annan stóran skjálfta eða vegna þess að heimili þeirra hafa hrunið til grunna.


Tengdar fréttir

Börnin skelkuð en heil á húfi

Margrét Ingadóttir sem rekur heimili fyrir munaðarlaus börn í Katmandú í Nepal segir að það hafi verið afar erfitt að ná ekki sambandi við heimilið eftir að öflugur jarðskjálfti reið yfir landið í dag.

Tugir þúsunda á vergangi í Nepal

Yfirvöld í Nepal hafa staðfest að 1500 manns hafi farist í skjálftanum en óttast er að tala látinna eigi enn eftir að hækka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×