Erlent

Vottaði þeim sem dóu í seinni heimstyrjöldinni samúð sína

Samúel Karl Ólason skrifar
Shinzo Abe á þinginu.
Shinzo Abe á þinginu. Vísir/AP
Shinzo Abe, forsætisráðherra Japan, vottaði Bandaríkjunum í dag samúð sína vegna þeirra hermanna sem létu lífið í seinni heimsstyrjöldinni. Án þess að biðjast afsökunar á stríðinu og framferði hermanna Japan, þá sagði hann að Japan iðraðist og að gjörðir þeirra hefðu valdið þjáningum íbúa margra Asíuríkja.

Þetta sagði Abe í ræðu sinni fyrir báðar deildir bandaríska þingsins, en hann er fyrsti forsætisráðherra Japan sem heldur slíka ræðu. Samkvæmt AP fréttaveitunni sagði hann að það sem væri liðið væri ekki hægt að taka til baka. Hann fagnaði þó því bandalagi sem varð á milli Japan og Bandaríkjanna í kjölfar heimsstyrjaldarinnar.

„Óvinir sem áður börðust svo grimmilega eru orðnir sannir vinir. Hvað eigum við að kalla það annað en kraftaverk sögunnar?“

Tilgangur heimsóknar Abe var að safna stuðningi fyrir viðskiptasamkomulag á milli Bandaríkjanna, Japan og tíu annarra Kyrrahafsþjóða. Þar að auki ræddi hann um öryggismál. Seinna í vikunni verður reglum varðandi japanska herinn sem mun gera honum kleift að beita sér meira á heimsvísu.

Abe kom einnig að deilum Kínverja við nágranna sína um svæðisdeilur í Suður-Kínahafi. „Við verðum að tryggja að á hinu víða hafsvæði frá Indlandshafi til Kyrrahafs ríki friður og frelsi og að allir fylgi lögum.“

Hægt er að horfa á hluta af ræðu Abe hér að neðan. Fyrir þá sem hafa áhuga á að horfa á alla ræðuna, sem er um klukkutíma löng, er hægt að sjá hana hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×