Enski boltinn

Lið Kára notaði ólöglegan leikmann

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kári Árnason.
Kári Árnason. Vísir/Getty
Rotherham, lið íslenska landsliðsmannsins Kára Árnasonar, gæti misst þrjú stig á næstunni en enska sambandið hefur kært félagið fyrir að nota ólöglegan leikmann í leik í ensku b-deildinni í fótbolta.

Varnarmaðurinn Farrend Rawson, sem er á láni frá Derby County, spilaði allar 90 mínúturnar þegar Rotherham vann 1-0 sigur á Brighton fyrr í þessum mánuði.

Rawson var í miðri vörninni en Kári spilaði inn á miðri miðjunni þar sem hann hefur verið að spila að undanförnu.  

Farrend Rawson kom til félagsins á 28 daga láni 7. mars síðastliðinn en lánsamningurinn var runninn út daginn fyrir sigurleikinn á móti Brighton.

Steve Evans, knattspyrnustjóri Rotherham, talaði um það eftir leikinn að lánsamningurinn hefði verið framlengdur en Rawson var hinsvegar ekki með í næsta leik á móti Middlesbrough.

Aganefnd ensku deildarkeppninnar mun taka málið fyrir við fyrsta tækifæri svo hægt verði að komast að niðurstöðu fyrir lok tímabilsins.

Rotherham er í 21. sæti í ensku b-deildinni en væri aðeins fjórum stigum frá fallsæti ef að liðið myndi missa þessi þrjú stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×