Erlent

Fordæma loftárásir í Jemen

Samúel Karl Ólason skrifar
Mikill skortur er á nauðsynjarvörum eins og bensíni í Jemen. Hér má sjá röð við bensíndælur.
Mikill skortur er á nauðsynjarvörum eins og bensíni í Jemen. Hér má sjá röð við bensíndælur. Vísir/EPA
Uppreisnarmenn sjíta og aðrir vígahópar lögðu undir sig borgina Ataq sem er stærsta borgin á olíuríku svæði í suðurhluta Jemen. Hútum tókst þetta þrátt fyrir loftárásir Sádi-Arabíu og bandamanna þeirra sem staðið hafa yfir í tvær vikur núna.

Yfirvöld í Tehran segja loftárásir Sádi-Arabíu vera glæpsamleg. Íranir styðja Húta og hafa flutt hjálpargögn til Jemen, en þeir þvertaka fyrir að hafa veitt þeim vopn. Sádar hinsvegar, styðja Abed Rabbo Mansour, forseta Jemen, sem þurft hefur að flýja landið.

AP fréttaveitan segir frá því að aukin þátttaka Sádi-Arabíu og Íran í átökunum í Jemen gæti leitt til þess að ástandið verði eins og í Sýrlandi og Írak, þar sem Súnnítar og Sjítar berjast sín á milli.

Bandaríkin hafa ákveðið að flýta vopnasendingum til sveita hliðhollum forseta Jemen og Pakistan mun mögulega ganga til liðs við bandalag Sádi-Arabíu. Þá hafa Íranar sent tvö herskip að ströndum landsins.

Mikill fjöldi óbreyttra borgara hafa látið lífið á nokkrum vikum og Alþjóðlega heilbrigðisstofnunin telur að minnst 643 borgarar hafi látið lífið frá 19. mars. Þá segja þeir að 2.226 hafi særst og rúmlega hundrað þúsund hafi þurft að flýja heimili sín. Stofnunin hefur beðið um vopnahlé í borginni Aden, svo hægt verði að koma hjálpargögnum og nauðsynjavörum til íbúa.


Tengdar fréttir

Hundrað þúsund manns á flótta

Hálfum mánuði eftir að Sádi-Arabar og bandamenn þeirra hófu loftárásir á uppreisnarmenn í Jemen hafa tugir barna látið lífið.

Erlendir hermenn komnir til Jemen

Erlendir hermenn eru nú komnir til jemensku hafnarborgarinnar Aden. Ekki liggur fyrir að svo stödddu hverrar þjóðar hermennirnir eru.

Jemen sagt að hruni komið

Ástandið í Jemen hefur hríðversnað undanfarnar vikur. Mannréttindafulltrúi Sameinuðu þjóðanna fordæmir árásir á almenna borgara og segir landið á barmi algers hruns. Borgarastyrjöldin styrkir stöðu öfgahópa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×