Innlent

Tveir Íslendingar á leið til Jemen

Bjarki Ármannsson skrifar
Rauði krossinn á Íslandi sendir tvo fulltrúa til Jemen til að sinna stríðssærðum.
Rauði krossinn á Íslandi sendir tvo fulltrúa til Jemen til að sinna stríðssærðum. Vísir
Tveir sendifulltrúar Rauða krossins á Íslandi, Elín Jakobína Oddsdóttir skurðhjúkrunarfræðingur og Jón Magnús Kristjánsson bráðalæknir, eru á leið til Jemen til að sinna stríðssærðum. Með þessu er Rauði krossinn á Íslandi að bregðast við neyðarkalli Alþjóða Rauða krossins sem kom í kjölfar loftárása á Jemen sem hófust 25. mars.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Rauða krossinum á Íslandi. Rúmlega hundrað þúsund manns hafa þurft að yfirgefa heimili sín vegna átakanna í Jemen undanfarnar vikur og margar borgir eru án vatns og rafmagns. Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna telur að minnst 74 börn hafi látið lífið í átökunum. Uppreisnarmenn kljást þar við hersveitir stjórnvalda en Sádi-Arabar reyna að brjóta uppreisnina á bak aftur með loftárásum.

Elín er nú stödd í Djíbútí og þar bíður teymið eftir leyfi til að fara yfir Rauða hafið og inn í Jemen til að vinna á sjúkrahúsi í borginni Aden. Jón Magnús er staddur í Genf og er væntanlegur til Djíbútí á föstudag. Í Aden koma þau til með að gera skurðaðgerðir á særðum.

Elín er þaulvanur sendifulltrúi íslenska Rauða krossins og hefur áður starfað á Haítí eftir jarðskjálftann þar árið 2010 og á stríðssvæðum í Suður-Súdan og á Gasa. Jón Magnús sinnti slösuðum á vegum Rauða krossins í tjaldsjúkrahúsi eftir jarðskjálftann á Haítí.


Tengdar fréttir

Forseti Jemen kominn til Sádi-Arabíu

Loftárásir, undir forystu Sádi-Araba voru á ný gerðar á Jemen í nótt en markmið þeirra er að brjóta uppreisnarmenn Húta á bak aftur.

Erlendir hermenn komnir til Jemen

Erlendir hermenn eru nú komnir til jemensku hafnarborgarinnar Aden. Ekki liggur fyrir að svo stödddu hverrar þjóðar hermennirnir eru.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×