Erlent

Hundrað þúsund manns á flótta

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Vatnsskortur er tekinn að gera vart við sig í Sana.
Vatnsskortur er tekinn að gera vart við sig í Sana. Vísir/EPA
Alvarlegur flóttamannavandi hefur skapast hratt í Jemen eftir að Sádi-Arabar og bandamenn þeirra hófu loftárásir á uppreisnarmenn þar. Að sögn UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, hafa 100 þúsund manns flúið heimili sín þennan hálfa mánuð sem liðinn er frá því árásirnar hófust.

Meira en 500 manns hafa látið lífið, þar af að minnsta kosti 74 börn. Auk þess hafa að minnsta kosti 44 börn orðið fyrir limlestingum vegna árásanna.

„Þetta eru tölur byggðar á hófsömu mati og UNICEF telur að heildarfjöldi látinna barna sé miklu meiri,“ segir í tilkynningu frá UNICEF.

„Börn eru að gjalda óþolandi verð fyrir þessi átök,“ sagði Julien Harneis, fulltrúi UNICEF gagnvart Jemen, þar sem hann ræddi við fjölmiðla í Amman í Jórdaníu. „Það er verið að drepa þau, limlesta og hrekja þau að heiman, heilsu þeirra er stefnt í voða og skólagöngu þeirra raskað.“

Þá segir Robert Ghosen, yfirmaður Alþjóðanefndar Rauða krossins, í viðtali við breska útvarpið BBC að átökin hafi gert hafnarborgina Aden að sannkallaðri draugaborg.

Uppreisnarmenn úr röðum húta berjist þar við hersveitir hliðhollar stjórn landsins, en sprengjur frá loftárásarliðinu hafi fallið í gríð og erg á uppreisnarsveitirnar.

„Fólk sést hvergi, það er í felum“ hefur BBC eftir Ghosen. „Borgin er full af vopnuðu fólki úr ýmsum hópum sem eru að berjast. Þetta er stór borg en ekkert virkar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×