Erlent

Þriðji árásarmaðurinn gengur enn laus

Bjarki Ármannsson skrifar
Forseti Túnis segir að þrír menn, ekki tveir, hafi staðið á bak við árásina í Bardo-safninu.
Forseti Túnis segir að þrír menn, ekki tveir, hafi staðið á bak við árásina í Bardo-safninu. Vísir/AFP
Beji Caid Essebsi, forseti Túnis, segir í viðtali við fréttamiðla þar í landi að einn árásamaður til viðbótar við þá Yassine Abidi og Hatem Khachnaoui hafi staðið að skotárásinni í Bardo-safninu á miðvikudag. Sá gangi enn laus.

„Það voru örugglega þrír árásarmenn,“ sagði Essebsi í sjónvarpsviðtali í beinni útsendingu í dag. „Einn þeirra gengur enn laus, en hann kemst ekki langt.“

BBC greinir frá því að nokkrir hafi verið handteknir í tengslum við árásina en hingað til hefur verið talið að Abidi og Khachnaoui, sem létust báðir í áhlaupi lögreglu, hafi verið einir að verki. Hryðjuverkasamtökin ISIS hafa lýst yfir ábyrgð á árásinni, en yfirvöld hafa ekki staðfest að það sé rétt.

Sjá einnig: Spænsk hjón földu sig á Bardo-safninu í sólarhring

25 manns létu lífið í árásinni. Árásarmennirnir skutu á hóp ferðamanna þegar þeir fóru úr rútu sinni fyrir utan safnið. Fjöldi fólks flúði þá inn í safnið þar sem þeir Abidi og Khachnaoui héldu tugi manna í gíslingu.

Ferðamennirnir komu frá Japan, Ítalíu, Kólumbíu, Ástralíu, Frakklandi, Póllandi og Spáni. Árásin er mikið áfall fyrir landið þar sem ferðamannaþjónusta er ein mikilvægasta atvinnugreinin í landinu.


Tengdar fréttir

Árásarmennirnir í Túnis nafngreindir

Beji Caid Essebsi, forseti Túnis, segir landið nú eiga í stríði gegn hryðjuverkum. Nítján fórust í árás gærdagsins í Túnisborg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×