Erlent

Kosningar í Frakklandi: Hægrimenn unnu sigur í fyrri umferðinni

Atli Ísleifsson skrifar
Nicolas Sarkozy, fyrrum Frakklandsforseti, er leiðtogi UMP.
Nicolas Sarkozy, fyrrum Frakklandsforseti, er leiðtogi UMP. Vísir/AFP
Bandalag UMP, hægriflokks fyrrum forsetans Nicolas Sarkozy, og stuðningsflokka hans unnu sigur í fyrri umferð kosninganna sem fram fóru í Frakklandi í gær.

Í frétt BBC kemur fram að kosið hafi verið til 101 sýslustjórnar í landinu. Skólamál og velferðarmál eru meðal annars á könnu þessara sýslustjórna.

Að sögn talsmanns franska innanríkisráðuneytisins hlutu UMP og stuðningsflokkar 32 prósent atkvæða. Hægri öfgaflokkurinn Front National hlaut 25 prósent atkvæða en Sósíalistaflokkur Francois Hollande Frakklandsforseta 22 prósent.

Úrslit kosninganna þýða að kosið verður milli UMP og Front National í fjölda sýslna í síðari umferð kosninganna.

Sarkozy sagði úrslit kosninganna sýna fram á að Frakkar vilji sjá breytingar.

Áður fyrr hafa stuðningsmenn flestra flokka sameinast um að kjósa gegn öfgaflokkum í seinni umferð kosninganna. Þannig má búast við að kjósendur Sósíalistaflokksins muni til að mynda greiða UMP atkvæði sitt í síðari umferðinni sem fram fer á sunnudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×