Erlent

Sögð hafa brennt Kóraninn og barin til dauða

Bjarki Ármannsson skrifar
Frá mótmælum vegna árásarinnar í dag.
Frá mótmælum vegna árásarinnar í dag. Vísir/EPA
Afgönsk kona sem barin var til dauða af hópi fólks í höfuðborginni Kabúl í síðustu viku var borin til grafar í gær. Átján manns hafa verið handteknir vegna atviksins og þrettán lögreglumönnum vísað tímabundið úr starfi fyrir að hafa ekki gert nóg til að bjarga konunni.

Að því er kemur fram á vef BBC var Farkúnda, 27 ára guðfræðinemi, drepin eftir rifrildi við íslamskan múlla sem var að selja konum einhvers konar happagripi við helgiskrín. Er þau rifust var hún ásökuð um að hafa brennt eintak af Kóraninum og við það brást mannfjöldinn ókvæða við og réðst á hana.

Konan var meðal annars barin með kylfum og bíl keyrt yfir hana áður en kveikt var í henni. Sjónarvottar og rannsóknarmenn lögreglunnar segja ekkert benda til þess að Farkúnda hafi í raun kveikt í trúarritinu.

Hundruð Afgana komu saman að mótmæla í dag vegna árásarinnar. Ríkisstjórn landsins og lögregluyfirvöld hafa viðurkennt alvarleika málsins og talsmaður innanríkisráðuneytisins játaði að lögregla hefði getað brugðist betur við til að reyna að bjarga Farkúnda. Þá hefur Asraf Ganí, forseti landsins, kallað eftir rannsókn á atburðinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×