Innlent

„Hann veit að í íslam ræður konan líka og hana á ekki að neyða til neins“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Hjónin Mansoor Ahmad Malik og Mahdya Umar.
Hjónin Mansoor Ahmad Malik og Mahdya Umar.
Hjónin Mansoor Ahmad Malik og Mahdya Umar búa í Vesturbænum í Reykjavík. Þau eiga rætur að rekja til Pakistan en ólust upp í Þýskalandi og Englandi. Mansoor starfar hér sem trúboði Ahmadiyya-múslima en söfnuðurinn telur fjórar manneskjur.

Þeirra hjónaband varð til eftir að mæður þeirra hittust. Mamma Mansoors þekkti fólk sem starfar á eins konar hjónabandsdeild í samfélagi þeirra. Þau vissu af ólofaðri stúlku og mæður Mahdyu og Mansoors voru kynntar fyrir hvor annarri. Fjölskylda Mansoors á Englandi hitti síðan Mahdyu.

„Ég talaði við mömmu hans og sagði henni hvernig manneskja ég væri. Mamma mín talaði við hana. Við ræddum persónuleika okkar, viðhorf, menntun og hvort okkur gæti komið vel saman,“ segir Mahdya og heldur áfram:

„Þetta geta foreldrar rætt. Í stað þess að við reynum að fela eitthvað fyrir hvort öðru, foreldrarnir eru mjög opnir.“

Mansoor og Mahdya kynntust svo og ákváðu hvort þau vildu taka næsta skref. Þau spjölluðu saman í gegnum síma og Skype þar sem Mahdya bjó enn á Englandi.

„Ég man eftir fyrstu skilaboðunum sem ég sendi henni til að kynna mig. „Þú tekur þessa ákvörðun ef þú ert alveg sátt,““ segir Mansoor.

„Þá skipti ég um skoðun og leið betur,“ segir Mahdya. „Maður verður hræddur við einhvern sem hefur stundað trúboð í sjö ár og er mjög trúaður. Við þekkjum dæmi í okkar menningu um trúaða menn sem aðhyllast öfga. En mér líður vel. Hann veit að í íslam ræður konan líka og hana á ekki að neyða til neins.“

Rætt var við Mansoor og Mahdya í síðari þætti af Múslimunum okkar sem sýndur var á Stöð 2 á mánudagskvöld. Fyrri hluta þáttarins má sjá í heild sinni hér að neðan.


Tengdar fréttir

Múslimarnir okkar: Lágkúrulegt að hæðast að veikum

"Það er lágkúrulegt að gera grín að manni af því að hann er veikur,” segir Salmann Tamimi, varaformaður Félags múslima á Íslandi, í umræðuþætti sem verður birtur eftir seinni hluta Múslimanna okkar á mánudaginn á Stöð 2.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×