Erlent

Berlusconi hefur lokið samfélagsþjónustu sinni

Bjarki Ármannsson skrifar
Silvio Berlusconi.
Silvio Berlusconi. Vísir/AFP
Silvio Berlusconi, fyrrverandi forsætisráðherra Ítalíu, hefur lokið þeirri samfélagsþjónustu sem hann þurfti að sinna eftir að hann var dæmdur fyrir skattsvik. Hinn 78 ára Berlusconi hefur eytt fjórum klukkustundum á viku í að aðstoða eldri borgara með elliglöp frá því í maí í fyrra.

„Tíminn sem ég hef eytt með sjúklingunum og starfsfólkinu hefur haft mikil áhrif á mig,“ sagði Berlusconi við blaðamenn við sjúkraheimilið í Mílanó þar sem hann hefur starfað. Hann sagðist ætla að halda áfram að vinna með sjúklingunum í frítíma sínum, að því er fram kemur í frétt BBC.

Berlusconi, sem þrisvar gegndi embætti forsætisráðherra, á þó enn eftir að heyja nokkrar baráttur fyrir dómstólum. Meðal annars gæti komið til þess að aftur verði réttað í máli gegn honum þar sem hann var ákærður fyrir að borga vændiskonu undir lögaldri fyrir kynmök. Hann var sýknaður af ákærunni á sínum tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×