Innlent

Ferðamenn urðu illa úti í Öræfasveit

Bjarki Ármannsson skrifar
Bílar ferðamannanna voru ansi illa leiknir eftir ofsaveðrið.
Bílar ferðamannanna voru ansi illa leiknir eftir ofsaveðrið. Myndir/Jónína G. Aradóttir
„Ég er fædd og uppalin hér í Öræfasveitinni, þannig að maður hefur alveg upplifað svona veður. En núna er bara orðið svo mikið af túristum sem vaða bara út í veðrið.“

Þetta segir Jónína G. Aradóttir, starfsmaður á Hótel Skaftafelli, en hún stóð vaktina á hótelinu í gær ásamt öðrum og tók á móti ferðamönnum sem höfðu farið illa út úr ofsaveðrinu sem herjaði á Suðurland. Björgunarsveitir þurftu að hjálpa fólki úr um það bil tíu bílum eftir að rúður þeirra brotnuðu í steinafoki.

„Björgunarsveitirnar komu fólkinu bara úr og skildu bara bílana eftir,“ segir Jónína. „Svo byrjuðu þeir að koma með þá upp á hótel í morgun.“

Snarvitlaust veður var í Öræfasveitinni í gær og var starfsfólk hótelsins búið að vísa öllum frá sem áttu að koma þangað vegna veðursins. Jónína og samstarfsmenn hennar þurftu þó að taka á móti mörgum ferðamönnum, flestum erlendum, sem höfðu greinilega ekki gert sér grein fyrir því hversu slæmar aðstæður yrðu. Hún segir að fólkið hafi mögulega verið á leið á gististaði þar sem gestir eru ekki í beinu sambandi við starfsfólk.

Sjá einnig: Varðskipið Þór í ofsaveðri og ólgusjó

Björgunarsveitarmenn plasta fyrir gluggana á bílunum í morgun.Mynd/Jónína G. Aradóttir


„Við héldum okkur alltaf bara heima þegar það var svona veður og þá var þetta ekkert að rata í fréttirnar og svona,“ segir Jónína. „En núna er komið svo mikið af fólki sem náttúrulega veit ekki betur. Og þetta er ömurlegt fyrir það, þetta er náttúrulega bara tjón sem það þarf að borga sjálft.“

Margir höfðu lent í því að báðar rúðurnar öðrum megin brotnuðu alveg. Að minnsta kosti einn ökumaður reyndi að snúa við þegar rúðurnar fóru öðrum megin til að koma í veg fyrir að það snjóaði inn í bílinn. Um leið og hann sneri við, brotnuðu hins vegar báðar rúðurnar á hinni hlið bílsins. Jónína segir að fólkið sem leitaði skjóls á hótelinu hafi verið í uppnámi og nokkrir jafnvel grátandi.

„Við vorum að taka á móti fólkinu, gefa þeim að borða og vísa þeim í herbergi,“ segir hún. „Við reyndum líka að veita því áfallahjálp eins og við gátum, gefa þeim teppi og súpu og tala við það.“

Hún bendir á að aðstæður verði nokkrum sinnum á ári svona slæmar í sveitinni.

„Það þarf bara að koma upp einhverju prógrammi þannig að túristar geti séð hvernig veðrið er. Þannig að þetta endurtaki sig ekki aftur og aftur.“


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.