Fótbolti

Pellegrini: Vítaspyrnuklúður Messi gefur okkur möguleika

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Manuel Pellegrini, knattspyrnustjóri Manchester City, telur að vítaspyrnuvarsla Joe Hart hafi haldið lífi í möguleikum liðsins á því að slá út Barcelona og komast í átta liða úrslit Meistaradeildarinnar.

Luis Suarez kom Barcelona í 2-0 með tveimur mörkum í fyrri hálfleiknum en Sergio Aguero minnkaði muninn í þeim síðari. Messi fiskaði víti og gat komið Börsungum í 3-1 í uppbótartíma en lét Hart verja frá sér vítið auk þess að skalla frákastið framhjá frammi fyrir opnu marki.

„Þetta var mjög mikilvæg varsla," sagði Manuel Pellegrini við BBC eftir leikinn. „Þetta hefði verið orðið mjög erfitt í stöðunni 3-1," bætti Pellegrini við.

„Það eru ekki bestu úrslitin að tapa á heimavelli en við munum fara til Barcelona til að reyna að vinna leikinn. Við eigum ennþá möguleika," sagði Pellegrini.

Barcelona vann fyrri leik liðanna 2-0 í sextán liða úrslitunum í fyrra en seinni leikurinn endaði þá 2-1 fyrir Barcelona sem vann samanlagt 4-1. Lionel Messi skoraði einmitt úr vítaspyrnu í leiknum í Manchester fyrir ári síðan.

Lionel Messi hefur skoraði úr 44 af 57 vítum sínum fyrir Barcelona en Joe Hart varð sá níundi til að verja frá honum vítaspyrnu í Barcelona-búningnum.

Það er hægt að sjá víti Lionel Messi og um leið markvörslu Joe Hart í spilaranum hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×