Enski boltinn

Eiður Smári skoraði fyrir Bolton í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Eiður Smári Guðjohnsen.
Eiður Smári Guðjohnsen. Vísir/Getty
Eiður Smári Guðjohnsen skoraði fyrsta mark Bolton í kvöld í 3-1 sigri á Fulham í ensku b-deildinni í fótbolta. Eiður Smári er nú búinn að finna skotskóna og er heldur betur að stimpla sig inn hjá stuðningsmönnum Bolton.

Shaun Hutchinson kom Fulham í 1-0 á 20. mínútu en Eiður jafnaði metin rétt fyrir hlé með sínu þriðja marki á tímabilinu en jafnframt því fyrsta sem kom ekki af vítapunktinum.

Saidy Janko (80. mínúta) og Adam Le Fondre (89. mínúta) tryggði Bolton síðan sigurinn með mörkum í lok leiksins en Eiður Smári var þá farinn af velli.

Jóhann Berg Guðmundsson spilaði allan leikinn þegar Charlton Athletic tapaði 3-2 á heimavelli á móti Norwich City.

Kári Árnason spilaði allan leikinn fyrir Rotherham United sem tapaði 2-1 á útivelli á móti Blackburn Rovers.

Aron Einar Gunnarsson og félagar í Cardiff City gerðu markalaust jafntefli á heimavelli á móti Brighton & Hove Albion.

Bournemouth og Derby gerðu 2-2 jafntefli og því komst Middlesbrough í toppsæti deildarinnar eftir 2-1 útisigur á botnliði Blackpool.

Bolton er í 13. sæti, Cardiff er í 16. sæti, Rotherham er í 19. sæti og Charlton er í 20. sæti en liðin í 22. til 24. sæti sitja í fallsætunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×