Enski boltinn

Poyet: Stuðningsmenn vilja brjálaðan fótbolta

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Gus Poyet var sótillur eftir að lið hans, Sunderland, tapaði í gær fyrir QPR í ensku úrvalsdeildinni, 2-0.

Þetta var fyrsti sigur QPR á útivelli á tímabilinu og Poyet var ekki ánægður í viðtölum við fjölmiðla eftir leik og beindi reiði sinni að stuðningsmönnum Sunderland.

Stuðningsmennirnir hafa að undanförnu margir krafist þess að liðið spili ákveðnari og beinskeyttari knattspyrnu, líkari þeirri sem var við lýði þegar Niall Quinn og Kevin Phillips voru helstu stjörnur félagsins.

Poyet hefur hingað til látið sér fátt um finnst en virtist gefa eftir miðað við leikstíl Sunderland í síðari hálfleik. Hann var þó ekki hrifinn af því sem hann sá.

„Þetta er það sem fólkið vildi sjá. Þetta hefur það verið að biðja um í nokkurn tíma og kannski þarf það að vera aðeins stoltara af liðinu. En þetta brjálæði sem ríkti í seinni hálfleik gaf okkur heldur engin stig,“ sagði Poyet.

„Ég veit ekki hvort þetta var fótbolti. Ég skilgreini ekki þetta sem fótbolta. Þetta var örvæntingafullt lið sem hljóp mikið og reyndi að gera stuðningsmönnum sínum til geðs.“

„Það er ekki hægt greina spilið í leiknum því enginn vildi gefa boltann. Allir vildu bara koma boltanum fram - láta hann skoppa og fá horn. Það virtist mikilvægara að fá horn en heppnaða sendingu.“

„Ég held að það sé tímabært að allir staldri við, hugsi sig um og læri af þessu. Kannski þá er hægt að taka skref fram á við. Ef við ætlum að leysa okkar vandamál með því að biðja liðið um að gera hluti sem það er ekki fært um að gera þá verðum við að glíma við þessi vandamál í mörg ár.“

„Ég vil gjarnan vera sá maður sem breytir ákveðnum hlutum hér en ég sé það ekki gerast yfir stuttan tíma.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×