Enski boltinn

Coloccini fékk mynt í andlitið: Hefði getað blindast

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Fabricio Coloccini, fyrirliði Newcastle, var heppinn að hafa ekki blindast eftir að stuðningsmenn Crystal Palace grýttu í hann mynt þegar hann fagnaði marki í leik liðanna í gær.

Papiss Cisse kom Newcastle yfir og fagnaði Coloccini markinu ásamt félögum sínum þegar smápeningi var kastað í andlit hans.

„Svona lagað á ekki að sjást. Það verður að fjarlægja svona lagað úr knattspyrnunni,“ sagði John Carver, stjóri Newcastle. „Þetta eru vonbrigði fyrir þá því Crystal Palace á frábæra stuðningsmenn. En það þarf bara eitt fífl til að láta svona.“

„Ég hef séð atvikið og myndin hæfir Colo í andlitið rétt við augað. Hann var heppinn að missa ekki sjónina.“

Alan Pardew, sem hætti nýverið hjá Newcastle og tók við Crystal Palace, sagði málið sorglegt.

„Þetta er óvenjulegt fyrir félagið sem hefur gott orð á sér fyrir stuðningsmenn sína. Ég er viss um að þetta verður grandskoðað.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×