Enski boltinn

Eiður Smári: Eitthvað við það að vera fyrirliði

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Eiður Smári Guðjohnsen.
Eiður Smári Guðjohnsen. Vísir/Getty
Eiður Smári Guðjohnsen er kominn aftur til Bolton þar sem hann spilaði í upphafi ferilsins síns og íslenski framherjinn reynslumikli hefur farið vel af stað á gamla staðnum.

Eiður Smári fékk fyrirliðabandið fyrir síðasta leik og þakkaði fyrir það með því að jafna metin í 1-1 í 3-1 sigri á Fulham í ensku b-deildinni.

„Það er eitthvað sem er við það að vera fyrirliði og ég fann það þrátt fyrir að vera kominn á minn fótboltaaldur," segir Eiður Smári Guðjohnseon í viðtali við The Bolton News.

„Þetta er svolítið skrítið og erfitt að útskýra. Ég er bara ánægður með að við unnum leikinn. Ég hélt að ég hefði gert allt í fótboltanum en svo kemur upp aðstaða eins og þessi. Fótboltinn getur alltaf komið þér á óvart," sagði Eiður Smári.

„Ég var fyrirliði hjá íslenska landsliðinu og nokkrum sinnum hjá Chelsea líka. Kannski fékk ég bandið líka hjá Barcelona, ég bara man það ekki," sagði Eiður Smári sem var þarna fyrirliði Bolton-liðsins í fyrsta sinn.

„Mér leið eins og ég væri að koma heim þegar ég samdi aftur við Bolton. Ég var því ekki lengi að segja já þegar stjórinn spurði mig hvort ég tæki fyrirliðabandið," sagði Eiður Smári.

„Það ætti ekki að skipta máli hver sé fyrirliðinn en ég neita því ekki að því fylgir sérstök tilfinning," sagði Eiður Smári.  Hann hefur skorað þrjú mörk á tímabilinu en markið á móti Fulham var það fyrsta sem kom ekki af vítapunktinum.

„Ég sagði strax að það myndi taka mig nokkra leiki að komast í leikform sem og að þetta gæti verið upp og niður hjá mér. Ég vissi að ég þurfti tíma til að ná mér í fullt form og svo tekur það mig aðeins lengur en aðra í liðinu að ná mér eftir leiki," sagði Eiður Smári.

„Ég er mjög stoltur af því að hafa fengið fyrirliðabandið og ekki síst að fá að leiða lið sem sýndi þennan karakter í leiknum við Fulham," sagði Eiður Smári en það má finna allt viðtalið við hann hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×