Enski boltinn

Hinn tapsári Gus Poyet vildi helst byggja Kínamúr í kringum Sunderland

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gus Poyet, knattspyrnustjóri Sunderland, átti erfitt með að taka því að lið hans tapaði fyrir Bradford City í ensku bikarkeppninni í gær og kenndi bæði dómaranum og blaðamönnum um tapið.

Bradford City er í ensku C-deildinni en hefur nú slegið út úrvalsdeildarlið í tveimur umferðum í röð, fyrst Chelsea í 32 liða úrslitunum og svo Sunderland í 16 liða úrslitunum.

„Vandamálið eru þið en ekki ég," sagði Gus Poyet við fjölmiðlamennina sem voru mættir á blaðamannafundinn eftir leikinn en hann var ekki ánægður með hvernig haft var eftir honum eftir tapið á móti QPR í leiknum á undan.

„Ég ætla ekki að blanda mér í þetta lengur. Ef við gætum byggt Kínamúr í kringum Sunderland þá væri það frábært," sagði Gus Poyet.

„Þegar við hleypum ykkur inn og þið farið síðan út og skrifið bara það sem ykkur dettur í huga þá er komið upp vandamál. Ég bið alla stuðningsmenn Sunderland og fólkið í kringum félagið að hlusta bara á mig en ekki ykkur," sagði Poyet.

Poyet var heldur ekki sáttur með það að vera spurður út í það af hverju Jermain Defoe var ekki með í leiknum. „Þið þurfið að vita alltof mikið og við reynum að gefa ykkur ekki alltof mikið af upplýsingum. Hann er meiddur, er í smá vandamálum með kálfann á sér og við vitum ekki hversu lengi hann verður frá," sagði Poyet.

Poyet varð enn pirraðri þegar hann fór að tjá sig um dómara leiksins sem var Kevin Friend. Hann var enginn vinur Úrúgvæmannsins eftir þennan leik.

„Við gerðum okkar besta og sjáum ekki eftir neinu því allir gáfu allt sitt miðað við kringumstæðurnar. Þeir náðu að skora í byrjun leiks en síðan fórum við að finna leiðir til að ógna Bradford. Þegar við þurftum að fá mark og dómarinn átti að dæma þá sinnti dómarinn hreinlega ekki starfinu sínu," sagði Poyet.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×