Erlent

Tsipras neitar að leita til Rússlands

Atli Ísleifsson skrifar
Alexis Tsipras sækir nú Kýpur heim.
Alexis Tsipras sækir nú Kýpur heim. Vísir/AFP
Alexis Tsipras, nýr forsætisráðherra Grikklands, hefur útilokað möguleikann að snúa sér til Rússlands til að biðja um aðstoð til að takast á við efnahagsvanda landsins. Viðræður við helstu lánadrottna – Evrópusambandið, Seðlabanka Evrópu og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn – standa nú yfir.

„Við erum með skuldbindingar gagnvart þeim. Núna eru engar aðrar hugmyndir uppi,“ sagði Tsipras þegar hann ræddi við blaðamenn í fyrstu utanlandsheimsókn sinni sem forsætisráðherra. Samkvæmt hefð var förinni heitið til Nikósíu, höfuðborgar Kýpur.

Tsipras segist þó vilja sjá nýja aðila til að halda utan um stuðninginn við Grikkland. Embættismenn frá ESB, Seðlabanka Evrópu og AGS fylgjast nú með og taka út aðhaldsaðgerðir Grikklandsstjórnar.

Forsætisráðherrann ítrekaði jafnframt að grísk stjórnvöld sjái það ekki sem leið úr kreppunni að yfirgefa evrusvæðið.


Tengdar fréttir

Tsipras vill fara samningaleiðina

Alexis Tsipras boðar miklar breytingar í Grikklandi, uppstokkun í kerfinu og sanngjarna samninga við lánardrottna. Hann segist samt vilja forðast átök við Evrópusambandið og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×