Innlent

Aðeins einn bar í Reykjavík með leyfi til að sýna Super Bowl

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
"Ég fæ svo margar fyrirspurnir frá túristum og hef eiginlega aldrei fengið jafnmargar erlendis frá. Við lítum á þetta sem þjónustu við ferðamenn,“ segir Einar Sturla Möinichen, eigandi Glaumbars.
"Ég fæ svo margar fyrirspurnir frá túristum og hef eiginlega aldrei fengið jafnmargar erlendis frá. Við lítum á þetta sem þjónustu við ferðamenn,“ segir Einar Sturla Möinichen, eigandi Glaumbars.
Glaumbar var eini skemmtistaðurinn í Reykjavík sem hafði leyfi frá borgaryfirvöldum til þess að hafa opið lengur en til eitt í nótt. Einn stærsti íþróttaviðburður ársins í heiminum, Super Bowl, fór þá fram og stóð til klukkan að ganga fjögur í nótt. Söfnuðust ferðamenn og Íslendingar saman á skemmtistöðum bæjarins af því tilefni til að glápa á leikinn. Eiganda Glaumbars tókst á síðustu stundu að útvega leyfi til að hafa opið fram á nótt. Hann sótti einnig um leyfi til að hafa opið á Hressingarskálanum/Bjarna Fel en var hafnað. Opið var á fleiri stöðum í Reykjavík nótt þótt ekki væru leyfi fyrir því.

Gestir Ölvers í Glæsibæ þurftu að yfirgefa staðinn um eittleytið í nótt þegar leikurinn var rétt u.þ.b. hálfnaður. Ástæðan var sú að staðurinn hafði ekki leyfi til þess að hafa opið lengur en til eitt í nótt. Vísir greindi frá málinu í morgun og haft var eftir einum gesta staðarins að alls ekki allir hefðu haft varaplan upp á að horfa á leikinn annars staðar.

Glaumbar í Tryggvagötu.Vísir/Pjetur
Einar Sturla Möinichen, sem meðal annars á og rekur skemmtistaðina Glaumbar og Hressingarskálann/Bjarna Fel Sportbar, var brenndur eftir heimsókn lögreglu á Bjarna Fel á meðan á Super Bowl stóð í fyrra. Þurftu gestir staðarins frá að hverfa og brugðu sumir á það ráð að horfa á það sem eftir lifði leiks í gegnum rúðuna á gangstétt Austurstrætis.

„Starfsmaður við öryggisgæslu hjá sendiráðinu var á staðnum og spurði hvort hann ætti að redda þessu fyrir mig,“ segir Einar léttur um uppákomuna í fyrra. Málið sé hins vegar að það er langt í frá auðsótt fyrir vínveitingastaði að fá leyfi til þess að hafa opið lengur en til eitt. Það hafi í raun reynst mjög erfitt. Raunar geti vínveitingastaðir ekki sótt um svokölluð tækifærisleyfi til lengri opnunartíma.

Aldrei fengið jafnmargar fyrirspurnir

„Ég hef sýnt Super Bowl í gegnum árin,“ segir Einar Sturla en hann er ekki sá eini. Boðað hefur verið til Super Bowl partýs á fjölmörgum skemmtistöðum undanfarin ár án leyfis og því upp á von og óvon hvort lögregla mæti og loki sjoppunni. Einar Sturla ákvað að gera tilraun til að sækja um leyfi þótt svo til engar líkur væri á að það fengist.

„Ég sótti um leyfi í byrjun janúar fyrir Hressó og Glaumbar,“ segir Einar sem fékk svar á mánudaginn fyrir viku. Synjun í báðum tilfellum. Einar segist hafa átt von á synjun enda hafi hann fengið þau skilaboð, þegar hann var hvattur til að sækja um hjá borginni, að  von væri á neitun.

„Sæktu bara um leyfi en ég veit þú færð það neikvætt,“ rifjar Einar upp. Vika var til stefnu og komst Einar að því að möguleiki væri á að fá undanþágu og leyfi en þá þyrfti að koma með erindi inn á fund Borgarráðs Reykjavíkur. Hjálpaði til að Einar er félagsmaður í Samtökum ferðaiðnaðarins. Þau skoðuðu málið með honum og komust að því að leggja þyrfti málið fyrir fund borgarráðs sem var á dagskrá á fimmtudaginn síðasta.

„Ég fæ svo margar fyrirspurnir frá túristum og hef eiginlega aldrei fengið jafnmargar erlendis frá. Við lítum á þetta sem þjónustu við ferðamenn.“

Úr fundargerð Borgarráðs Reykjavíkur frá fundi síðastliðinn fimmtudag.
Auðsótt leyfi í Kópavogi

Einar segir að þau hafi verið að bardúsa í að vinna erindið til borgarráðs framan af viku. Þau hafi verið meðvituð um að Kópavogsbær hefði veitt skemmtistaðnum Spot í Kópavogi leyfi til lengri opnunar án nokkurs vesens.

„Við bentum á að það væri eitthvað skrýtið við það að ferðamenn í Reykjavík þyrftu að fara í Kópavog til að horfa á leikinn,“ segir Einar. Óhætt er að segja að áhugi á leiknum um allan heim sé gríðarlega mikill. Vestanhafs er enginn viðburður sem kemst með tærnar þar sem Super Bowl hefur hælana hvað sjónvarpsáhorf varðar. Fyrsti sunnudagurinn í febrúar er lagður undir leikinn og varla sála á ferð á götum borga og bæjar í Norður-Ameríku.

„Það er í yfirlýstri stefnu borgarinnar að veita fjölbreytta þjónustu fyrir ferðamenn,“ segir Einar Sturla. Á fimmtudaginn var erindið svo tekið fyrir. Fékkst leyfi fyrir lengri opnun á Glaumbar en afsvar fyrir lengri opnun á Hressingarskálanum. Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallavina sátu þó hjá við afgreiðslu málsins „á þeim forsendum að við teljum varhugavert fordæmi að veita undanþágur á þeim grundvelli sem framlögð gögn bera með sér.“

Einar Sturla segist þurfa að skila greinargerð til borgarráðs um hvernig til hafi tekist. Leyfið hafi fengist með þeim formerkjum að um tilraun hafi verið að ræða.

Fjölmargir hafa horft á fótboltaleik á Glaumbar í gegnum árin.Vísir/Valli
Lögregla mætti ekki á Bjarna Fel

Einar segir að fullt hús hafi verið á Glaumbar í gær en langstærstur hluti gesta hafi verið útlendingar. Flestir hafi verið á bandi Seattle Seahawks sem biðu á endanum lægri hlut eftir æsispennandi lokasekúndur. Alls konar fólk hafi verið mætt og meðal þeirra sem pantað hafi borð fyrir tuttugu var yfirmaður hjá Wal Mart á sviði samfélagsmiðla.

Sem fyrr segir rekur Einar Sturla einnig Hressingarskálann/Bjarna Fel Sport bar í Austurstræti sem sýna alla helstu íþróttaviðburði í beinni. Leikurinn var sýndur á Bjarna Fel í nótt líkt. Eigendur fleiri skemmtistaða í borginni, á borð við Ölver, höfðu leikinn til sýningar í nótt án leyfis.

„Maður er ekkert í því að brjóta reglur um opnunartíma en þetta er svo sérstakt tilfelli,“ segir Einar Sturla. Hann bendir á að hann sé í sambandi við bandaríska sendiráðið í kringum stórleiki sem þennan en sendiráðið beini fólki, meðal annars starfsmönnum sendiráðsins, á staðinn.

Einar segir ljóst að Reykjavíkurborg verði að geta boðið ferðamönnum, ekki síst bandarískum, upp á að horfa á Super Bowl þegar þeir sækja borgina heim.

Að neðan má sjá æsispennandi lokasekúndur leiksins í gærkvöldi en nánari umfjöllun má lesa hér.




Tengdar fréttir

Þjálfari Seattle tók á sig sökina

20 sekúndur á klukkunni, eitt skref eftir í markið og leikhlé inni. Seattle var með einn sterkasta hlaupara deildarinnar tilbúinn að klára leikinn en liðið ákvað að kasta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×