Innlent

Super Bowl partý á Ölveri leyst upp af lögreglu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Ölver í Glæsibæ er bæði vinsæll sport- og karókíbar.
Ölver í Glæsibæ er bæði vinsæll sport- og karókíbar.
Liðsmenn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu voru óvæntir gestir á skemmtistaðnum Ölveri í Glæsibæ í Reykjavík í nótt. Um fimmtíu manns voru á staðnum að horfa á úrslitaleikinn í ameríska fótboltanum, Super Bowl, en þeir þurftu að finna sér nýjan samastað til að horfa á leikinn eftir að löggan mætti á svæðið.

Þegar lögreglan mætti á svæðið var leikurinn um það bil hálfnaður og stemningin í rólegri kantinum. Skipti það litlu máli þar sem ekki hafði fengist leyfi til að hafa staðinn opinn fram á nótt. Óhætt er að segja að aðgerðir lögreglu hafi farið öfugt ofan í gesti staðarins sem fyrir vikið þurftu að finna sér nýjan samastað til að horfa á leikinn, þegar klukkan var farin að ganga tvö. Var langt í frá að allir hefðu í önnur hús að vernda samkvæmt gesti sem blaðamaður ræddi við í nótt.

Sjá einnig: Einn besti Super Bowl sögunnar

Almennt hafa vínveitingahús á höfuðborgarsvæðinu aðeins opnunarleyfi til klukkan eitt utan föstudags og laugardagskvölda. Hins vegar er hægt að sækja um sérstakt leyfi til að hafa opið lengur líkt og fjölmargir skemmtistaðir gerðu í gærkvöldi. Það virðist hins vegar hafa gleymst í tilfelli Ölvers.

Viðureign Seattle Seahawks og New England Patriots í Super Bowl í gærkvöldi fer í sögubækurnar. Patriots vann hreint ótrúlegan sigur þar sem lokamínúturnar voru lyginni líkastar líkt og sjá má í umfjöllun um leikinn á Vísi.

Uppfært klukkan 14:48

Svo virðist sem skemmtistöðum í Reykjavík reynist heldur erfitt að fá leyfi til að hafa opið lengur en gengur og gerist. Það segir eigandi Glaumbars sem var sá eini sem fékk leyfi til að hafa opið fram á nótt á meðan á Super Bowl stóð.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×