Enski boltinn

Fletcher: Fór til WBA fyrir börnin

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Fletcher hittir áhorfendur fyrir leikinn í dag
Fletcher hittir áhorfendur fyrir leikinn í dag vísir/getty
Darren Fletcher gekk til liðs við WBA frá Manchester United á dögunum svo börnin hans gætu séð hann spila fótbolta.

Fletcher er 31 árs gamall og búinn að verma varamannabekk Manchester United meira og minna allt keppnistímabilið. Hann lék aðeins einn leik frá upphafi til enda undir stjórn Louis van Gaal.

„Eftir allt sem ég hef gengið í gengum var erfitt fyrir mig að fá ekki að spila,“ sagði Fletcher.

„Ég er atvinnumaður í fótbolta og vil spila fótbolta. Þegar ég barðist við veikindi mín var ljósið á endanum í öllu myrkrinu og einmannaleikanum að ég væri ungur og hefði unnið allt mitt líf að því að vera atvinnumaður. Ég vildi ekki gefast upp of snemma.

„Börnin mín voru enn frekar ung og höfðu ekki séð mig spila það mikið. Það keyrði mig áfram.

„Þegar þú ert á bekknum viku eftir viku verður þetta erfitt sérstaklega þegar þér finnst þú geta gefið svo mikið af þér.

„Ég vil að strákarnir sjái mig spila og ég hélt að það myndi gerast fyrir Manchester United. Svo var ekki og nú er ég hjá West Brom. Þetta er nýr kafli fyrir mig,“ sagði Fletcher sem er í byrjunarliði WBA sem sækir Burnley heim í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 2 í hádeginu í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×