Enski boltinn

Real Madrid fylgist vel með Harry Kane

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Harry Kane skorar og skorar.
Harry Kane skorar og skorar. vísir/getty
Real Madrid hefur fylgst vel með enska framherjanum Harry Kane að undanförnu. Njósnarar spænska risans hafa þrisvar sinnum séð Kane spila.

Þeir voru á staðnum þegar hann skoraði tvö mörk í frábærum 5-3 sigri á Chelsea í desember og sáu Kane afgreiða Arsenal einn síns liðs með tveimur mörkum í norður-Lundúnaslagnum á laugardaginn.

Frá þessu greinir Daily Mail, en Kane er sagður nú þegar vera mikið fréttaefni í Madríd þar sem hann heldur spænska landsliðsmanninum Roberto Soldado á bekknum.

Hið magnaða sóknarþríeyki Real Madrid; Cristiano Ronaldo, Gareth Bale og Karim Benzema, var mikið gagnrýnt eftir leik liðsins gegn Atlético á laugardaginn þegar það kom ekki skoti á markið.

Þar sem Jesé Rodríguez er næsti maður inn er talið líklegt að Real kaupi sér nýjan framherja í sumar og þar er Kane líklegur miðað við áhugann sem stórliðið virðist hafa á honum.

„Hann var að skrifa undir nýjan samning en það eru engar klásúlur um riftunarverð á Englandi þannig ef eitthvað félag býður í hann fer það í samningaviðræður við Tottenham,“ sagði Mauricio Pochettino, knattspyrnustjóri Real Madrid, við RAC1 í síðustu viku.

Harry Kane er búinn að skora tólf mörk í úrvalsdeildinni og 22 í 34 leikjum í öllum keppnum fyrir Tottenham á tímabilinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×