„Sorglegt, vonbrigði og dálítið vandræðalegt fyrir Ísland að hafa ekki sent hátt settan fulltrúa,“ skrifar Haslund. Vísar hann þar til þess að staðgengill sendiherra Íslands í Frakklandi hafi verið eini fulltrúi Íslands á samstöðufundinum. Forsætisráðherrar allra hinna Norðurlandanna mættu á fundinn.
Greint hefur verið frá því að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra hafi ekki komist vegna samverkandi þátta, til að mynda ferðatíma og dagskrá. Ekkert hefur þó fengist uppgefið um dagskrá ráðherrans um helgina. Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra komst ekki þar sem hann er í New York að undirbúa rakarastofuráðstefnu í samvinnu við Sameinuðu þjóðirnar.
Fjarveran hefur verið gagnrýnd harðlega og spannst mikil umræða um málið á Twitter þar sem gys var gert að Sigmundi og ríkisstjórninni fyrir að mæta ekki. Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, sagði í viðtali í Íslandi í dag í gær að „óheppilegt“ væri að enginn ráðherra hafi mætt til Parísar.