Innlent

Utanríkisráðherra er að undirbúa jafnréttisráðstefnu í New York

Linda Blöndal skrifar
„Við höfum sent samúðarkveðjur til Frakka út af þessu hræðilega máli,“ segir Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra. Hann er sem stendur staddur í New York að undirbúa ráðstefnu um jafnrétti kynjanna sem fram fer í borginni í næstu viku.

Enginn ráðherra ríkisstjórnarinnar var viðstaddur samstöðufund í París í dag. Þjóðarleiðtogar ríkja um heim allan komu þar saman og gengu fylktu liði til að minnast fórnarlamba skotárásanna sem hafa átt sér stað víðsvegar um Frakkland í vikunni. Staðgengill sendiherra sótti fundinn fyrir Íslands hönd.

„Á morgun mun fulltrúi okkar rita í minningarbók í utanríkisráðuneytinu í Frakklandi falleg orð frá íslensku þjóðinni. Í kjölfarið munu utanríkisráðherrar og líklega varnarmálaráðherrar ræða þetta saman á okkar vettvangi og allar líkur á því að þjóðarleiðtogar muni ræða þetta sín á milli.“

Ekki hefur enn fengist staðfest hversu margir voru komnir saman í París í dag en það var að minnsta kosti ein milljón manns.

„Ég fékk boð um að vera þarna en því miður hittist það þannig á að ég er staddur í Bandaríkjunum í augnablikinu,“ segir Gunnar Bragi Sveinsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×