Innlent

Forsætisráðherra ekki viðstaddur

Sveinn Arnarsson skrifar
Forsætisráðherra komst ekki til Frakklands en hitti franska sendiherrann og færði honum samúðarkveðjur.
Forsætisráðherra komst ekki til Frakklands en hitti franska sendiherrann og færði honum samúðarkveðjur.
Hvorki forsætisráðherra né utanríkisráðherra voru viðstaddir friðargönguna í París í gær, vegna þeirra voðaverka sem dunið hafa yfir Parísarbúa síðustu sólarhringa.

Urður Gunnarsdóttir, upplýsingafulltrúi utanríkisráðuneytisins, sagði í samtali við Fréttablaðið að staðgengill sendiherra Íslands í Frakklandi hafi verið viðstaddur friðargönguna sem fulltrúi íslenskra stjórnvalda. Hún sagði sendiherrann ekki hafa verið í Frakklandi í gær. Af þeim sökum hafi hann því ekki getað verið viðstaddur.

Jóhannes Þór Skúlason, aðstoðarmaður forsætisráðherra, segir forsætisráðherra ekki hafa getað þekkst boð franskra stjórnvalda.

„Íslenskum stjórnvöldum barst boð frá frönsku ríkisstjórninni um að vera viðstödd friðargönguna síðdegis á föstudegi. Á þeim tímapunkti átti forsætisráðherra ekki þess kost að þekkjast boð að þessu sinni. Hins vegar hafði hann stuttu áður hitt franska sendiherrann á Íslandi og fært honum samúðarkveðjur til frönsku þjóðarinnar, en gat því miður ekki mætt í gær til Parísar,“ segir Jóhannes.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins barst sams konar boð til forsetaembættisins og utanríkisráðuneytisins frá frönskum stjórnvöldum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×