Innlent

Öfgasamtökin PEGIDA komin til Íslands

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Síða samtakanna var opnuð á sunnudag.
Síða samtakanna var opnuð á sunnudag.

Rúmlega tvö hundruð hafa látið sér líka við Facebook síðu öfgasamtakanna PEGIDA á Íslandi. Hreyfingin er þýsk að uppruna og berst gegn meintum íslömskum áhrifum í Evrópu. Mbl.is greindi frá þessu í morgun og segir að Facebook-síðan sé stofnuð á sunnudag.

Facebook-síðan er stofnuð undir heitinu PEGIDA á Íslandi og í lýsingu hennar segir að um sé að ræða samtök fólks gegn islamvæðingu Evrópu. Meðal mynda sem deilt er á síðunni er samsett mynd af merki Reykjavíkurborgar, mosku og textanum „STOP THE REYKJAVIK MOSQUE!“, sem á íslensku myndi útleggjast: „STÖÐVUM MOSKUNA Í REYKJAVÍK!“

„Við munum birta hér fréttatengt efni frá viðurkenndum erlendum fréttaveitum sem tengist innreið og uppgang islam í Evrópu,“ segir í lýsingu hópsins. „Fréttatengt efni sem fjölmiðlar á Íslandi birta ekki bæði til þöggunar og vegna pólitísks rétttrúnaðar.“

Ekki er gefið upp hverjir hafa látið sér líka við síðu samtakanna. 

Samtökin hafa undanfarið staðið fyrir mótmælum gegn innflytjenda- og flóttamannastefnu yfirvalda. Angela Merkel, kanslari Þýskalands, hefur hvatt landa sína að taka ekki þátt í mótmælum samtakanna. Fjallað var um mótmæli PEGIDA á mánudag í Fréttablaðinu í dag.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.