Enski boltinn

Liverpool fækkar strákum í akademíunni til að búa til betri leikmenn

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Liverpool vill fá fleiri uppalda leikmenn inn í liðið hjá Jürgen Klopp.
Liverpool vill fá fleiri uppalda leikmenn inn í liðið hjá Jürgen Klopp. vísir/getty
Enska úrvalsdeildarfélagið Liverpool er búið að fækka strákum í akademíu sinni um 15 prósent til að auka gæðin á leikmönnunum.

Á síðasta ári er Liverpool búið að fækka leikmönnum í akademíunni úr 240 í tæplega 200 en Alex Inglethorpe, yfirmaður unglingastarfs Liverpool, segir félagið stefna að meiri gæðum frekar en magni.

„Hugmyndafræðin á bakvið akademíu er að þar eiga bara að vera bestu leikmennirnir,“ segir hann í viðtali við Liverpool Echo.

„Maður á að geta horft í augu hvers leikmanns og foreldra hans og geta sagt að það sé raunverulegur möguleiki á að strákurinn verði síðar leikmaður Liverpool.“

„Það hjálpar hvorki foreldrunum né leikmanninum ef strákurinn er tekinn inn bara til að fylla upp í hópinn. Mér finnst það ekki rétt. Oft fara þessir strákar til annarra liða, eru ánægðir og eiga mun meiri möguleika á að spila reglulega,“ segir Inglethorpe.

Jordan Rossiter hefur komið við sögu á þessu tímabili.vísir/getty
Þurfa að vera nógu góðir

Tiltektin í unglingastarfinu hjá Liverpool hófst á síðasta tímabili. Leikmenn í akademíunni eru tæplega 200 og stefna menn á Anfield að því að fækka enn frekar í unglingastarfinu.

Liverpool tefldi ekki fram einum uppöldum leikmanni í byrjunarliðinu gegn Everton í fyrri Merseyside-slagnum á þessari leiktíð. Síðast var Liverpool ekki með uppalinn leikmann í byrjunarliðinu gegn Everton í bikarúrslitunum 1986.

Jordan Rossiter, Connor Randall og Jon Flanagan eru þeir síðustu sem komist hafa inn í aðalliðið í gegnum unglingastarfið. Inglethorpe segir að Liverpool þurfi nú að einbeita sér að sínum hæfileikaríkustu strákum svo þeir eigi möguleika að spila fyrir aðalliðið.

„Nú stefnum við ekki að því að vera með ákveðið marga leikmenn í hverjum aldursflokki heldur viljum við ákveðin gæði í hverjum flokki,“ segir hann.

„Það er engin fullkomin tala til að vera með í hverjum flokki. Ef við erum með 25 ótrúlega hæfileikaríka stráka á sama aldri sem eiga möguleika á að verða leikmenn Liverpool þá verða þeir 25.“

„Það er samt engin tilgangur að vera með 25 leikmenn í sama aldursflokki ef aðeins tíu þeirra eiga möguleika á að komast í U21 árs liðið. Það er ekki sanngjarnt gagnvart hinum í hópnum,“ segir Alex Inglethorpe.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×