Enski boltinn

Hodgson: Kane verðskuldar sæti í landsliðinu - Rooney er ekki miðjumaður

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Roy Hodgson.
Roy Hodgson. vísir/getty
Það virðist nokkuð ljóst að Roy Hodgson, landsliðsþjálfari Englands, ætlar að velja framherjann unga hjá Tottenham, Harry Kane, í næsta landsliðshóp.

England mætir Litháen og Ítalíu í undankeppni EM 2016 í næsta mánuði á sama tíma og strákarnir okkar ferðast til Kasakstan og spila þar mikilvægan leik.

Kane, sem er 21 árs gamall, er búinn að skora 23 mörk í 25 leikjum á leiktíðinni, en Hodgson segir hann hafa allt sem framherji þarf að hafa.

„Kane verðskuldar svo sannarlega sæti í hópnum,“ segir Hodgson í viðtali við BBC.

„Er hann verðugur sætisins eins og Rooney, Welbeck og Sturridge? Það er eitthvað sem hann þarf að sanna. En ef ég gef honum ekki tækifæri getur hann ekki sannað sig.“

„Ef maður getur verið stjarna hjá toppliði eins og Tottenham þegar maður er 21 árs gamal þá er maður að standa sig nokkuð vel.“

Wayne Rooney, landsliðsfyrirliði Englands, hefur ekki skorað mikið að undanförnu enda spilað mikið á miðjunni hjá sínu liði. Hann er aftur á móti búinn að skora sex mörk í síðustu sex leikjum fyrir landsliðið.

„Hans besta staða er ekkert endilega á miðjunni og ég ætla mér ekki að nota hann þar á næstunni. En hver veit? Aldrei segja aldrei,“ segir Roy Hodgson. „Hann er markaskorari og þú vilt alltaf hafa þá í stöðu til að skora mörk.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×