Enski boltinn

Enska úrvalsdeildin verður eins og NBA ef þetta hættir ekki

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Manchester City vill í samstarf með franska liðinu.
Manchester City vill í samstarf með franska liðinu. vísir/getty
Bernard Caiazzo, annar af tveimur forsetum franska 1. deildar liðsins Saint-Étienne, biðlar til evrópska knattspyrnusambandsins, UEFA, að grípa inn í sjónvarpsréttarmálin í ensku úrvalsdeildinni áður en illa fer.

Caiazzo telur að franska deildin sem og aðrar í Evrópu verði skildar eftir í rykinu frá og með leiktíðinni 2016/2017 þegar nýr sjónvarpssamningur tekur gild í ensku úrvalsdeildinni.

Ensku félögin munu þá skipta með sér um 8,5 milljörðum punda á þriggja ára tímabili þegar allt er tekið til, en sjónvarpsrétturinn bara í Englandi fór á 5,14 milljarða punda.

„Enska úrvalsdeildin verður NBA-deildin í fótbolta. Hún verður stærri en Meistaradeildin. Félög eins og Manchester United og Chelsea mun hafa 700-800 milljónir punda til að eyða,“ segir Caiazzo í viðtali við franska fjölmiðla.

„Það sem er að gerast á Englandi mun hafa áhrif á fótboltann í Þýskalandi, Ítalíu og Spáni. Ég get ekki ímyndað mér að UEFA grípi ekki inn í. En það verður meiri umfjöllun um málið ef þessi beiðni kemur frá Bayern München, Real Madrid eða AC Milan í stað Saint-Étienne.“

Þessi bón Caiazzo er frekar áhugaverð þar sem félagið hans er í viðræðum við Manchester City um náið samstarf. Englandsmeistararnir íhuga að lána bestu ungu leikmennina sína til Saint-Étienne svo þeir öðlist leikreynslu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×